Blak kvenna: Uppgjafir skópu sigrana - Myndir
Þróttur tryggði sér um helgina sæti í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki með því að vinna KA tvisvar en liðin mættust í Neskaupstað. Tvær magnaðar uppgjafaraðir lögðu grunninn að sigrunum.Þróttur vann fyrri leikinn á föstudagskvöld 3-1 eða 28-26, 25-19, 18-25 og 25-15 í hrinum.
Sigurinn í fjórðu hrinu var merkilegur fyrir þær sakir að staðan var 10-15 fyrir KA þegar Eydís Elva Gunnarsdóttir fór í uppgjöf. Þaðan fór hún ekki það sem var eftir var leiks, skoraði sjö stig beint úr uppgjöf og Þróttur vann hrinuna 25-15.
Á laugardag vann KA fyrstu hrinuna 22-25. Akureyrarstelpur svekktu sig reyndar í tvígang því þær töldu sig tvisvar áður hafa skorað sigurstig en dómararnir voru ekki sammála og dæmdu Þrótti boltann.
Þróttur hafði undirtökin í annarri hrinu en missti reyndar 7-2 stöðu í byrjun niður í 7-6. Matthías Haraldsson, þjálfari, tók þá leikhlé og Þróttur náði strax aftur fimm stiga forskoti sem hélst út hrinuna sem vannst 25-20.
KA komst yfir á ný með að vinna þriðju hrinu 16-25 eftir að hafa verið yfir allan tímann.
Jafnræði var framan af fjórðu hrinu og meðal annars jafnt 10-10. Þá var komið að Lilju Einarsdóttur í uppgjöf og í kjölfarið fylgdu ein tíu stig Þróttar í röð sem vann hrinuna 25-13.
Heimaliðið hafði síðan undirtökin í oddahrinunni og tryggði sér sigur í leiknum.
„Ég er nokkur sáttur við langa kafla í þessum leikjum. Þetta eru mikilvæg stig," sagði Matthías þjálfari í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.
Athygli vakti að Þróttur snéri báðum leikjunum með uppgjafaröðum í fjórðu hrinu. „Þetta var mjög sérstakt en snérist ekki bara um góðar góðgjafir. Liðið hrökk í gang og fór að spila vel.
Við töluðum um það í báðum leikjunum að okkur vantaði betri uppgjafir. Fyrsta uppgjöfin var oft fín en við fylgdum þeim ekki eftir. Ef við gefum nokkrum sinnum vel upp í röð þá skorum við stigin en ef þær klikka þá verða leikirnir erfiðir."
Markmið tímabilsins var að komast í úrslitakeppnina og það er nú tryggt með fjórða sætinu. „Við vissum að við værum með ungt lið sem myndi berjast við KA um sætið. Þær hafa styrkt sig síðan í haust þannig það var ekkert sjálfgefið að við myndum vinna þær en það tókst."
Mótherjinn í undanúrslitum verður Afturelding sem haft hefur mikla yfirburði í deildinni í vetur. Liðið úr Mosfellsbæ hafði yfirburði þegar liðin mættust í bikarkeppninni um síðustu helgi.
„Mér finnst við geta gert aðeins betur en við gerðum í bikarnum. Við ætlum að njóta þess að vera með í úrslitakeppninni. Þetta verður góð reynsla fyrir stelpurnar.
Það eru ekki mörg ár síðan við fórum inn í úrslitakeppnina sem síðasta liðið og slógum út HK sem voru deildarmeistarar. Fordæmið er því fyrir hendi."