Blómlegt starf hjá Blæ
Hestamannafélagið Blær stendur fyrir Hestadögum í Dalahöllinni næstkomandi laugardag. Einnig töltkeppni, sem er loka dagur í þriggja móta liðakeppni félagsins.Vetrarstarf hestamannafélagsins Blæs hefur verið mjög blómlegt það sem af er árinu. Æskulýðsstarf félagsins stendur sem fyrr styrkum fótum og er það ekki síst að þakka fórnfúsu starfi foreldra. Æskulýðsnefnd félagsins stendur fyrir reglulegri samveru hestakrakka og er margt brallað, s.s. heimsóknir í hesthús félagsmanna, fræðslukvöld, pizzakvöld, jólaföndur og fleira.
Öflugt námskeiðahald
Félagið stóð fyrir þriggja helga reiðnámskeiði undir leiðsögn Reynis Atla Jónssonar reiðkennara. Námskeiðið var vel sótt af hestamönnum á öllum aldri, ekki síst börnum og ungmennum og var frábær viðbót við knapamerkjanámskeiðin sem haldin voru í fyrra í samvinnu við Verkmenntaskóla Austurlands. Kennari á þeim námskeiðum var Ragnheiður Samúelsdóttir reiðkennari.
Tíminn milli námskeiðshelga hefur verið vel nýttur til æfinga í höllinni, en með tilkomu Dalahallarinnar með reiðaðstöðu, hesthúsi og félagsaðstöðu hefur möguleiki félagsmanna til að stunda íþrótt sína gjörbreyst.
Yngsti knapinn sigraði
Kvennatölt Blæs, sem haldið er til minningar um Halldóru Jónsdóttur hestakonu, fór fram þann 14. febrúar. Þar bar sigur úr býtum yngsti keppandi mótsins, Elísabet Líf Theodórsdóttir 14 ára, á Vífli frá Íbishóli.
Hestadagar og þriðji keppnisdagur Vetrarleikann
Vetrarleikar Blæs eru nú haldnir í annað sinn, í formi þrigga daga liðakeppni. Fyrri tveim dögunum er lokið með keppni í fjór- og fimmgangi og þrautabrautar á tíma. Lokadagurinn verður í Dalahöllinni næstkomandi laugardag þar sem keppt verður í tölti.
Klukkan 14:00, að töltkeppninni lokinni, hefjast Hestadagar í Dalahöll – kynning á íslenska hestinum og hestamennsku. Hestamannafélagið Blær mun bjóða gestum og gangandi uppá skemmtilega hestasýningu léttar veitingar, auk þess sem börnunum gefst kostur á að fara á hestbak.