Lætur íbúðarhúsið undir þjónustu fyrir hestamannamót
Einar Kristján Eysteinsson og Sigrún Júnía Magnúsdóttir, bændur á Tjarnarlandi í Hjaltastaðaþinghá, láta íbúðarhúsnæði sitt undir aðstöðu fyrir Ístölt Austurlands.„Við hleypum bara sjoppunni inn og leyfum fólki að fara á klósettið. Það fær samt ekki að hlamma sér í sófann til að hlýja sér," segir Einar Kristján.
Ístöltmótið er stærsta vetrarmót austfirskra hestamanna og undanfarin ár hefur það verið haldið á Móavatni við Tjarnarland.
Bændur þar fylgjast með ísnum dagana á undan og taka til í hesthúsum sínum þannig að keppnishrossin geti verið þar á keppnisdag.
„Þetta er bara okkar aðstaða sem við höfum byggt upp síðustu ár. Fyrir nokkrum árum var reistur sumarbústaður við vatnið fyrir gesti og gangandi. Ég bý reyndar í honum í dag en það er ekkert mál að lána hann undir mótið."