Glímukóngurinn: Maður er studdur þótt maður sé svikari
Reyðfirðingurinn Sindri Freyr Jónsson varð um síðustu helgi fyrsti Austfirðingurinn til að hljóta sæmdarheitið glímukóngur Íslands þegar hann sigraði í Íslandsglímunni sem haldin var á Reyðarfirði. Hann fékk góðan stuðning síns heimafólks þrátt fyrir að hafa skipt yfir í KR fyrir keppnistímabilið.„Það er alltaf langbest að glíma á Reyðarfirði. Gólfið er hentugt því það dúar vel undan sundlauginni sem er undir.
Stemmingin er líka betri þar en í bænum og áhorfendur styðja mann þótt maður sé svikari," segir Sindri Freyr.
Hann fékk þar fullt hús stiga en hann lagði Ásmund Hálfdán Ásmundsson í hreinni úrslitaglímu í síðustu umferðinni.
„Það sem við lögðum upp með fyrir daginn gekk upp nema þá helst í síðustu glímunni. Spennustigið var hátt og maður glímdi ekki alveg eins og maður ætlaði en þetta hafði eftir að hann tók á mig bragð sem ég náði að snúa við."
Spennan var mikil fyrir helgina því ljóst var að glímukóngur síðustu ára, Pétur Eyþórsson, yrði ekki með og nýtt nafn yrði skráð á Grettisbeltið. Reyðfirðingarnir, sem keppa undir merkjum UÍA, hafa verið í öðru sæti undanfarin þrjú ár og þá náði Sindri Freyr að leggja Pétur tvisvar.
„Maður kemst ekki nær sigrinum en að leggja glímukónginn tvisvar," segir Sindri.
„Sigurtilfinningin er því góð. Ég er búinn að stefna að þessu í nokkur ár og það er gott að titillinn er kominn í hús. Vitaskuld var maður svolítið stressaður en það varð að nota það á réttan hátt og passa að það yrði manni ekki að falli."
Sindri Freyr hefur keppt fyrir UÍA fram til síðasta hausts að hann skipti yfir í KR. Hið sama gerði Magnús Karl Ásmundsson sem varð í þriðja sæti. Þjálfari þeirra þar er Skarphéðinn Orri Björnsson, margfaldur glímukóngur Íslands.
Með Íslandsglímunni lauk keppnistímabili glímufólks í ár. Sindri Freyr segir að á næsta tímabili taki við að halda glímukóngstitlinum.
„Ég held að það verði erfiðra en að ná titlinum. Það verða allir snarvitlausir í að ná honum til baka."
Lærlingurinn og lærimeistararnir. Þóroddur Helgason, Sindri Freyr og Skarphéðinn Orri. Mynd: Jóhannes Pétur Héðinsson.