Glímudrottningin: Hjartslátturinn á milljón síðustu dagana fyrir mót

eva dogg johannsdottir april15Síðasta helgi var gjöful fyrir Evu Dögg Jóhannsdóttur, glímukonu frá Reyðarfirði. Hún hlaut Freyjumenið þegar hún sigraði í Íslandsglímunni á heimavelli og var útnefndur íþróttamaður UÍA fyrir árið 2014.

„Það er rosalega góð tilfinning að það sem maður hefur æft fyrir og sóst eftir í mörg ár skili loksins árangri," sagði Eva Dögg í samtali við Austurfrétt eftir Íslandsglímuna.

Eva Dögg varð í öðru sæti í fyrra en náði loks sigurlaununum. Hún gerði eitt jafnglími en vann aðrar glímur sínar. Fyrir helgina var ljóst að nýtt nafn kæmi á Freyjumenið þar sem glímudrottningar síðustu ára voru fjarverandi.

Eva viðurkennir að hafa fundið fyrir talsverðri pressu síðustu daga fyrir keppni. „Ég var skrýtin í maganum þrjá daga fyrri keppni og um leið og ég hugsaði um mótið fór hjartslátturinn á milljón.

Þannig var ég fram að fyrstu glímu og var því frekar hæg í gang en ég vann mig strax upp úr stressinu. Eftir það gekk mótið að óskum. Fyrst maður vann það getur maður ekki verið annað en sáttur."

Stórslemma hjá UÍA

Verðlaunapallurinn var alfarið UÍA rauður þar sem Bylgja Rún Ólafsdóttir varð önnur og Bryndís Steinþórsdóttir þriðja eftir úrslitaglímu um sætið.

Eva Dögg, sem býr og æfir í Reykjavík, segist ánægð með þær framfarir sem hún sjái eystra í glímunni um þessar mundir.

„Hjörtur (Steindórsson) hefur tekið við þjálfuninni og stendur sig vel. Bylgja Rún var valin efnilegasta glímukonan og hún er andstæðingur til að hræðast, sterk, viljug og með öflug brögð.

Hlutirnir fara að gerast hjá henni eftir 2-3 ár þegar hún verður orðin sterkari og reyndari. Hlutirnir eru reyndar þegar farnir að gerast hjá henni því maður lendir ekki í öðru sæti Íslandsglímunnar fyrir ekki neitt."

Eva Dögg hafði í nógu að snúast á keppnisdag því fyrir aðalglímuna var hún meðal dómara á Grunnskólaglímumóti Íslands. „Það var gaman að sjá hvaða krakkar eru að koma upp og ljóst að það er mikið af efnilegum glímukrökkum sem kunna atriði sem ég hefði aldrei getað gert á þeirra aldri."

Íþróttamaður UÍA annað árið í röð

Helgin var gjöful fyrir Evu Dögg sem einnig var útnefnd íþróttamaður UÍA. Hún ætlaði að taka við sigurlaununum á þingi sambandsins á Hallormsstað á laugardaginn en seinkun á skólamótinu kom í veg fyrir að hún kæmist þangað.

Nafnbótin féll henni í skaut annað árið í röð. „Ég er mjög stolt af því að fá að vera íþróttamaður UÍA því það er til marks um að maður sé að gera góða hluti og eftir þeim sé tekið," segir Eva Dögg sem einnig æfir frjálsíþróttir með ÍR. Þær æfingar skila sér yfir í glímuna.

„Þær gefa mér aukinn styrk og maður lærir smáatriði í tækninni sem smitast inn í glímuna. Frjálsíþróttirnar snúast um að nota sem minnsta orku til að ná sem mestum árangri, að minnsta kosti í kastgreinunum sem ég æfi. Bestu köstin eru þau auðveldustu.

Ég finn núna að bestu brögðin í glímunni eru þau sem eru tímasett rétt og gerast náttúrulega þannig að maður þarf ekki að rembast."

Hún segir hins vegar að glíman sé hennar aðalgrein. „Þar eru ræturnar. Glímuhópurinn er eins og ein stór fjölskylda."

Þar stefnir hún erlendis í sumar en í fyrra vann hún keppni í backhold í Skotlandi. Keppnisferð er fyrirhuguð til Englands og Skotlands í ágúst. „Alþjóðlegu mótin hafa gengið vel hjá mér undanfarin ár og stefnan er á að halda áfram að bæta mig."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.