Öldungamót: Ætla að prófa að ryðja völlinn á morgun
Mótsstjórn öldungamótsins í blaki ætlar að gera tilraun til að tjalda keppnistjöldunum á íþróttavellinum í Neskaupstað á morgun. Mótið hefst á fimmtudagsmorgun.Til að geta hýst mótið voru pöntuð þrjú uppblásin tjöld erlendis frá og var prófað að tjalda einu þeirra í tuttugu stiga hita og glampandi sól fyrir rúmri viku.
Sumardagurinn fyrsti markaði hins vegar upphaf vetrarins eystra og síðustu daga hefur snjóað ríflega í Neskaupstað sem annars staðar.
Mótshaldarar hafa um helgina prófað ýmis snjóruðningstæki og varð niðurstaðan sú að panta litla gröf til að moka völlinn á morgun. Í kjölfarið verða tjöldin reist og þau hituð upp.
Mótshaldarar treysta á góða veðurspá um næstu helgi en varaáætlun er um að tjalda inni í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði.
Mótið er hið fertugasta í röðinni og von er á 970 keppendum sem skiptast í 133 lið. Mótið hefst á fimmtudagsmorgun og stendur til laugardags.