„Þetta er bara verkefni til að leysa": Öldungamótið fært að hluta inn í Fjarðabyggðarhöllina
Ákveðið hefur verið að færa Öldungamótið í blaki, sem hefjast átti í Neskaupstað á morgun, inn í Fjarðabyggðarhöllina að hluta.Til stóð að blása upp þrjú tjöld á gerfigrasvellinum í Neskaupstað í gær, sem hýsa áttu sjö blakvelli á Öldungamótinu. Tugir sjálfboðaliða höfðu unnið að því að moka snjó af gerfigrasvellinum, sem og að reisa tjöldin. Þegar langt var komið með að blása upp blakhúsið kom óvænt vindhviða sem lyfti húsinu upp og braut það saman.
Unnur Ása Atladóttir, framkvæmdastjóri blakdeildar Þróttar, segir þetta vissulega erfiða stöðu, en ekkert annað sé í stöðunni en að horfa fram á við.
„Þetta er bara verkefni til þess að leysa og við erum núna að vinna að þeim breytingum sem þarf. Við stefnum á að hefja mótið í fyrramálið eins og til stóð, en ljóst er að það er langur dagur framundan," segir Unnur Ása, en verið er að flytja húsin og gólfefnið yfir á Reyðarfjörð til þess að hægt sé að hefja uppsetningu í höllinni.