Höttur rótburstaði Hrafnkel: Þetta öskubuskuævintýri er búið
Utandeildarlið Hrafnkels Freysgoða er úr leik í bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir 16-0 tap fyrir Hetti, sem leikur í 2. deild, á Fellavelli á föstudag. Hattarmenn röðuðu inn tíu mörkum í seinni hálfleik.Fyrsta markið kom strax á sjöttu mínútu þegar Kristófer Örn Kristjánsson skoraði með góðu skoti úr teignum vinstra megin eftir langan bolta frá hægri.
Jovan Kujundzic og Högni Helga komu Hetti í 3-0 áður en komið var að hápunkti dagsins hjá Hrafnkelsmönnum þegar markvörðurinn Natan Leó Arnarsson varði vítaspyrnu Jordan Farahani.
Það kom þó ekki í veg fyrir að þeir bættu við þremur mörkum fyrir leikhlé, þar af var eitt þeirra skráð sem sjálfsmark á Natan þegar hann blakaði inn hornspyrnu.
Hattarmenn héldu síðan áfram og bættu við tíu mörkum í seinni hálfleik, þar af komu tvö í uppbótartíma.
Sýnilega var dregið af leikmönnum Hrafnkels í seinni hálfleik og dæmi voru um að menn heimtuðu að koma af velli þegar í ljós kom að enn voru skiptingar eftir.
„Ég þakka okkar leikmönnum fyrir frammistöðu dagsins en við vissum að það yrði á brattann að sækja," sagði Erlingur Hjörvar Guðjónsson, liðsstjóri Hrafnkels í samtali við Austurfrétt í leikslok.
Á ýmsu gekk hjá liðinu dagana á undan. Sextán menn fengu leikheimild sólarhringinn fyrir leik en ekki voru nema fjórtán skráðir á skýrslu.
Eins þurfti Erlingur að hlaupa í skarðið fyrir annan forráðamann sem staddur var erlendis á leikdag þrátt fyrir að hafa verið hvatamaðurinn af því að skrá liðið í keppnina.
Þá tafðist leikurinn um hálftíma á meðan beðið var eftir síðustu leikmönnum Hrafnkels, sem jafnframt voru með búninga liðsins, en þeir töfðust í erfiðri færð frá Djúpavogi.
„Þetta var öskubuskuævintýri en það er nú búið," sagði Erlingur. „Nú þurfa menn bara að taka sig aðeins saman í andlitinu og mæta ferskir í Launaflsbikarinn í sumar."
Gunnlaugur Guðjónsson, þjálfari Hattar, stillti upp því sterkasta byrjunarliði sem hann átti völ á. „Það má segja að þetta hafi verið skyldusigur en menn verða að mæta til leiks og bera virðingu fyrir öllum andstæðingum. Við gerðum það í dag," sagði hann.
„Okkur vantaði tvo leikmenn sem voru veikir og tvo sem voru meiddir en verða með okkur í sumar."
Garðar Már Grétarsson skoraði fimm mörk, Högni fjögur, Jovan tvö og að auki komist þeir Jordan, Bragi Emilsson, Brynjar Árnason og Kristófer á blað.
Frammistaða Kanadamannsins Jordans á miðjunni vakti mikla athygli en hann gekk til liðs við Hött í byrjun síðustu viku.
„Hann náði tveimur æfingum með okkur fyrir leik. Hann lítur mjög vel út og fellur vel inn í hópinn. Við keyptum ekki köttinn í sekknum þar."