Knattspyrna: Huginn verðskuldaði að vinna Hött stærra - Myndir

fotbolti huginn hottur mai15 0008 webHuginn hefði hæglega getað unnið stærri sigur á Hetti en 1-0 þegar liðin mættust á Fellavelli í annarri umferð 2. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Hattarmenn þurfa hins vegar að snúa sér aftur að hinu fræga teikniborði.

Segja má að Huginsmenn hafi verið ákveðnari og sneggri í öllum aðgerðum sínum í kvöld. Strax á fimmtu mínútu settu þeir góða hápressu á vörn Hattar sem var í vandræðum með að spila boltanum fram og fékk í staðinn á sig skyndisóknir og hálffæri.

Fyrsta alvöru færið kom á 15. mínútu þegar Marko Nikolic komst inn á vítateiginn vinstra megin og átti hörkuskot að marki sem Sigurður Hrannar Björnsson varði vel í horn.

Á 35. mínútu komst Miguel Garcia inn fyrir Hattarvörnina vinstra megin og renndi boltanum til vinstri á Fernando Calleja sem var fyrir miðjumarki en hitti boltann illa svo hann rúllaði út af.

Skoraði beint úr aukaspyrnu

Marko kom Huginn yfir eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik. Aukaspyrna hans utan að hægri kanti sigldi þá í gegnum alla Hattarvörnina og í markhornið fjær.

Hattarmenn fóru í strax í sókn og Högni Helgason átti þeirra fyrsta alvöru marktækifæri Hattar. En líf Hattar fjaraði út jafn snögglega og það varð til en þess í stað áttu Seyðfirðingar færin.

Miguel og Fernando komust báðir einir inn fyrir Hattarvörnina en Sigurður Hrannar bjargaði Hattarliðinu í bæði skiptin. Stefán Ómar Magnússon og Fernando fengu einnig fín færi en þó þröng.

Besta færi Hattar kom á 73. mínútu þegar Huginsmenn björguðu á línu eftir skalla eftir hornspyrnu.

Huginsmenn mun betri

Hattarmenn héldu boltanum betur en gerðu ekkert við hann. Sóknaraðgerðir liðsins voru hægar og enduðu flestar áður en komið var að vítateig Hugins. Þá lentu þeir ítrekað í vandræðum með að spila boltanum út úr vörninni.

Marko Nikolic fór fyrir sóknarleik Hugins. Hattarmönnum gekk bölvanlega að ná af honum boltanum og sendingar hans rötuðu oft fyrir fætur Spánverjanna tveggja sem ollu usla með hraða sínum.

Orri Sveinn Stefánsson, sem kom að láni frá Fylki í gærkvöldi, nýttist vel í baráttuna á miðjunni og fyrirliðinn Birkir Pálsson öskraði sína menn áfram, þá sjaldan sem þörf var á, úr vörninni.

Vorum drulluflottir

Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins, var kokhraustur að leik loknum. „Mér fannst við drulluflottir. Þriðji æfingaleikurinn er búinn og við verðum betri með hverjum leiknum," sagði hann en Huginsmenn spiluðu engan formlegan æfingaleik áður en tímabilið hófst.

„Það er samt ekki eins og við mætum úr vinnunni og byrjum að spila 1. maí. Menn hafa æft hver í sínu horni til að vera tilbúnir þegar mótið byrjaði."

Leikáætlun hans gekk ágætlega upp þótt heldur mörg færi þyrfti í sigurmarkið. „Við ætluðum að pressa þá ofarlega og vinna boltann stutt frá þeirra marki. Það hafðist loksins því við skoruðum örugglega úr versta færinu."

Urðum hræddir og litlir

Gunnlaugur Guðjónsson, þjálfari Hattar, hrósaði Seyðisfjarðarliðinu en var afar óhress með sitt.

„Það var einkennilegt að sjá okkur ekki berjast betur. Við reyndum að spila út úr vörninni en það gekk illa og við urðum hræddir og litlir. Það er eitthvað sem við verðum að skoða. Huginsmenn voru mikið betri og eiga hrós skilið."

Höttur mætir Sindra á Höfn í bikarkeppninni á þriðjudag og Gunnlaugur lofaði breytingum fyrir þann leik.

„Við erum með stóran hóp og hugurinn er sterkur hjá strákunum en við munum gera talsverðar breytingar fyrir þann leik, það er ljóst."
fotbolti huginn hottur mai15 0017 webfotbolti huginn hottur mai15 0018 webfotbolti huginn hottur mai15 0022 webfotbolti huginn hottur mai15 0034 webfotbolti huginn hottur mai15 0035 webfotbolti huginn hottur mai15 0039 webfotbolti huginn hottur mai15 0044 webfotbolti huginn hottur mai15 0045 webfotbolti huginn hottur mai15 0049 webfotbolti huginn hottur mai15 0057 webfotbolti huginn hottur mai15 0064 webfotbolti huginn hottur mai15 0066 webfotbolti huginn hottur mai15 0069 webfotbolti huginn hottur mai15 0072 webfotbolti huginn hottur mai15 0075 webfotbolti huginn hottur mai15 0079 webfotbolti huginn hottur mai15 0080 webfotbolti huginn hottur mai15 0083 web
fotbolti huginn hottur mai15 0013 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.