Knattspyrna: 32-liða úrslit Borgunarbikarsins - Austfirsku liðin fá ólík verkefni

fotbolti kff leiknir bikar 0080 webFjarðabyggð og Höttur voru í pottinum þegar dregið var í 32-liða úrslit Borgunarbikars karla í höfuðstöðvum KSÍ í dag. Skemmst er frá því að segja að liðin fengu afar ólík verkefni. Fjarðabyggð fær Kára frá Akranesi í heimsókn en lið Kára leikur í 3. deild. Hattarmenn fá öllu strembnara verkefni, en þeir fara til Reykjavíkur og etja kappi við Víking, sem leikur í Pepsi-deildinni.

Fjarðabyggð ætti fyrirfram að eiga nokkuð greiða leið í 16-liða úrslit keppninnar, en þó er Kári með mjög öflugt lið, sem byggt er upp af ungum strákum frá Akranesi. Þeim er spáð afar góðu gengi í 3. deildinni í sumar og byrja mótið með sannfærandi hætti.

Hattarmenn hefðu eflaust frekar viljað fá heimaleik, en þó er alltaf gaman að fá að máta sig gegn jafn sterkum andstæðingum og Víkingar eru. Óttar Steinn Magnússon fyrirliði Hattar hefur leikið með Víkingum undanfarin tvö ár. Hann er ekki sá eini í röðum Hattar sem þekkir vel til í Fossvoginum, enda eru þeir Jovan Kujundzic og markvörðurinn Sigurður Hrannar Björnsson á láni hjá Hetti frá Víkingum.

Þegar lið Hattar og Víkings mættust seinast í keppnisleik unnu Hattarmenn öruggan 5-2 sigur á Vilhjálmsvelli. Það var árið 2012, þegar bæði lið voru í 1. deild.

Áhugavert verður að fylgjast með áframhaldandi þáttöku austfirsku liðanna í Borgunarbikarnum. Leikur Fjarðabyggðar og Kára fer fram þann 2. júní, en leikur Víkings og Hattar er degi seinna.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.