Knattspyrna: Hattarmenn skoruðu loksins – Fjarðabyggð, Huginn og Leiknir unnu

fotbolti huginn hottur mai15 0044 webLið Hattar tók á móti KV á Fellavelli í dag í þriðju umferð 2. deildar karla og vann 3-0 sigur, sem var þó ekki jafn þægilegur og lokatölurnar benda til. Leikurinn var jafn lengst af og einkenndist af miklum barningi. Lítið var um að liðin sköpuðu sér opin færi og fátt var um fína drætti í sóknarleik liðanna.

Fyrsta mark leiksins kom eftir rúmar 20. mínútur eftir snarpa sókn Hattar. Þá kom fyrirgjöf inn á teiginn frá vinstri kantinum og Ísleifur Guðmundsson stangaði boltann í markmann KV og þaðan fór hann í netið. Þetta var fyrsta mark Hattar á tímabilinu og svo sannarlega kominn tími til að skora.

Fátt annað markvert átti sér stað í fyrri hálfleik. Hattarmenn brutu ítrekað á sóknarmönnum KV þegar þeir voru að fá boltann í lappirnar. Óttar Steinn Magnússon fékk gult spjald eftir hálftíma leik, en þá var hann búinn að sparka framherja gestanna niður í allavega þrjú skipti.

Síðari hálfleikur var mjög svipaður þeim fyrri. Mikill barningur og hiti var í leikmönnum beggja liða og því miður virtist dómari leiksins missa tökin á leiknum um stund. 

Leikmenn lágu ítrekað í jörðinni eftir viðskipti sín á milli sem dómarinn lét óátalin, en næg ástæða hefði verið til þess að stöðva leikinn í nokkur þessara skipta og róa leikmenn niður.

Leikmenn KV settu töluverða pressu á lið Hattar seinasta stundarfjórðung leiksins, en báru ekki erindi sem erfiði. Þeir fengu fjölda hornspyrna, en ekkert kom upp úr þeim.

Marteinn Gauti Kárason kom inná sem varamaður í síðari hálfleik og þegar komið var fram í uppbótartíma sótti hann á varnarmenn KV við vítateigshornið og uppskar vítaspyrnu. Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem Marteinn sækir víti, en hann virðist hafa einhverja náðargáfu fyrir því að flétta löppum sínum saman við lappir varnarmanna.

Miðvörðurinn Jovan Kujundzic fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi eins og sjá má hér að meðan. 2-0 fyrir Hetti og þeir fáu áhorfendur sem lögðu leið sína á Fellavöll í roki og rigningu kættust mjög.

Leikmenn Hattar létu þó ekki 2-0 duga, því einungis mínútu síðar skoraði Kanadamaðurinn Jordan Farahani eftir ótrúlega atburðarás inni í vítateig gestanna, sem virtust slegnir eftir að Hattarmenn komust tveimur mörkum yfir.

Sigur Hattar í dag var verðskuldaður, en þó gefa lokatölurnar til kynna full mikla yfirburði. Varnarleikur heimamanna var góður í dag og skóp sigurinn. Hattarmenn leyfðu hæfileikaríkum sóknarmönnum KV ekki að snúa með boltann og skapa eitthvað, heldur mættu þeim af ákveðni og brutu sóknir þeirra á bak aftur áður en þær hófust.

Jordan Farahani var sennilega besti maður vallarins. Hann var mjög sprækur á miðjunni hjá Hetti. Einnig voru Jovan og Óttar voru traustir í miðri vörninni.

Góðar ferðir hjá hinum austfirsku liðunum

Hin austfirsku liðin voru að spila útileiki í dag, vítt og breitt um landið.Gengi þeirra var nánast eins og best væri á kosið.

Fjarðabyggð sigraði stórveldið Fram 0-1 á Laugardalsvelli í 1. deildinni. Heimamenn skoruðu sjálfsmark um miðjan seinni hálfleik og þar við sat. Gríðarlega sterk stig hjá KFF.

Huginn gerði góða ferð á Hofsós, þar sem þeir mættu Tindastól. 0-2 sigur varð niðurstaðan, en Huginsmenn voru manni fleiri nær allan leikinn. Leikmaður Tindastóls fékk rautt spjald á 5. mínútu og Marko Nicolic skoraði beint úr aukaspyrnu á 6. mínútu. Fernando Calleja skoraði svo seinna mark Hugins á 15. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki.

Huginsmenn eru því á toppnum með fullt hús stiga líkt og Leiknismenn, sem gerðu frábæra ferð í Mosfellsbæ og sigruðu Aftureldingu 1-2 með mörkum frá Arek Jan og Fernando Garcia Castellanos.

Einherji fór á Akranes og náði í sterkt jafntefli gegn góðu liði Kára, 2-2. Sigurður Donys og Todor Hristov skoruðu mörk Vopnfirðinga, sem virðast vera búnir að hrista af sér stórtapið gegn Magna á dögunum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.