Mótorkross: Stór hópur frá Start fer á Klaustur
Um 25 keppendur frá Aksturíþróttaklúbbnum Start á Fljótsdalshéraði taka þátt í einu stærsta þolakstursmóti ársins, sem haldið verður á Kirkjubæjarklaustri um helgina. Hátt í 300 keppendur eru skráðir til leiks á mótið og er hópurinn frá Start sá stærsti af landsbyggðinni.Keppt er í ýmsum flokkum á Klaustri og er mótið einskonar hátíð mótorkrossfólks á Íslandi. Keppnin snýst að sögn Páls Jónssonar meira um að hafa gaman en að vinna einhverja titla. Mótið tilheyrir ekki Íslandsmótaröðinni og keppt er í mörgum flokkum, til að mynda svokölluðum afkvæmaflokki.
Þeir allra hörðustu fara í járnkarlaflokkinn og keyra linnulaust í tæpar sex klukkustundir, en um 20-25 mínútur tekur að fara einn hring í brautinni á Kirkjubæjarklaustri. Flestir keppendurnir frá Start taka þátt í tvímenningi, en þá eru tveir ökumenn sem skipta keppninni á milli sín og fá tækifæri til að hvíla á milli hringja.
Austurfrétt leit við hjá hópnum í gærkvöldi, þegar skoðun og yfirferð hjólanna fór fram við Rafey á Egilsstöðum. Mikill spenningur var í hópnum og sagði Ástráður Ási Magnússon að veðurspáin fyrir helgina væri með besta móti. „Það er spáð smá rigningu held ég, sem er gott því þá verður ekki allt í rykmekki þegar þessi 200 hjól leggja af stað á sama tíma,“ sagði Ási.