Knattspyrna: Vopnafjarðarvöllur orðinn leikfær - Aðrir grasvellir á Austurlandi í slæmu ástandi
Flest austfirsk knattspyrnulið eru ekki öfundsverð af ástandi grasvalla sinna, en gera má ráð fyrir því að austfirsku liðin spili á gervigrasi Fellavallar eða Fjarðabyggðarhallar langt fram eftir júnímánuði og mögulega lengur.Eskjuvöllur á Eskifirði er langt frá því að vera grænn, Seyðisfjarðarvöllur hefur verið undir miklu vatni og Vilhjálmsvöllur á Egilsstöðum er töluvert frá því að vera tilbúinn. Hið sama má segja um Búðagrund á Fáskrúðsfirði sem þarf enn töluverðan tíma til að ná sér eftir veturinn.
Vopnafjarðarvöllur er hinsvegar í góðu ásigkomulagi og er orðinn leikfær samkvæmt Víglundi Páli Einarssyni, þjálfara karlaliðs Einherja.
„Völlurinn kemur mjög vel undan vetri og við myndum spila á honum núna um helgina ef við ættum heimaleik, en við eigum bara ekki heimaleik fyrr en 13. júní. Við erum mjög ánægðir með hvernig völlurinn er að koma út. Ég er búinn að sjá völlinn á Egilsstöðum og hann lítur ekkert sérstaklega vel út – og veit að Seyðisfjarðarvöllur er ekki góður,“ sagði Víglundur.
Völlurinn var lagður fyrir tveimur árum og Vopnfirðingar spiluðu í fyrsta sinn á honum síðasta sumar. Snjó hefur ekki fest á vellinum að neinu ráði í vetur og grasið er að verða iðagrænt og fallegt, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem tekin var á Vopnafirði á miðvikudag.