Knattspyrna: Fjarðabyggð örugglega áfram í Borgunarbikarnum

fotbolti kff njardvik 18082014 0068 webFjarðabyggð tryggði sig í kvöld áfram í 16-liða úrslit Borgunarbikars karla með öruggum 4-0 sigri á 3. deildarliðinu Kára frá Akranesi. Leikið var á Norðfjarðarvelli.

Fjarðabyggð komst yfir þegar einungis 4. mínútur voru liðnar. Þá komst Brynjar Jónasson einn innfyrir og kláraði af öryggi. Fjarðabyggð bætti síðan við öðru marki á 29. mínútu eftir fallegt spil. Víkingur Pálmason sendi þá glæsilega sendingu fyrir markið á Ólaf Örn Eyjólfsson sem skoraði.

Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik. Káramenn gáfu Fjarðabyggð ekkert eftir þrátt fyrir að vera tveimur deildum neðar og hart var barist, samkvæmt atvikalýsingu fótbolta.net.

Á 54. mínútu fiskaði Brynjar Jónasson víti, fór sjálfur á punktinn en markvörður Kára varði vel. Fjarðabyggð bætti ekki við öðru marki fyrr en á 79. mínútu. Þá skoraði Ingvar Ásbjörn Ingvarsson og aftur var það Víkingur Pálmason sem lagði upp markið.

Fréttaritari fótbolta.net greinir frá því að þegar um tíu mínútur lifðu leiks hafi áhorfendur á vellinum komið auga á hval á hafi úti og má telja líklegt að það hafi vakið lukku. Fátt merkilegt gerðist hinsvegar inni á vellinum fyrr en á 89. mínútu, þegar Viðar Þór Sigurðsson þrumaði knettinum í markið eftir sendingu frá Martin Sindra Rosenthal og fullkomnaði öruggan 4-0 sigur Fjarðabyggðar.

32-liða úrslit Borgunarbikarsins halda áfram á morgun, en þá fara Hattarmenn til Reykjavíkur og leika gegn Pepsi-deildarliði Víkings.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.