Norðfirskar blakmægður sjálfboðaliðar á Smáþjóðaleikunum: Þetta fyrst við vorum ekki í liðinu
Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, formaður blakdeildar Þróttar Neskaupstað og dóttir hennar, María Rún Karlsdóttir, sem var stigahæsti leikmaður meistaraflokks kvenna síðasta vetur, eru meðal þeirra sjálfboðaliða sem starfa við blakkeppni Smáþjóðaleikana. María Rún var við það að taka þátt í leikunum með landsliðinu en Þorbjörg á að baki ferna leika sem keppandi.„Mér finnst mikilvægt að geta gefið af mér á þennan hátt," segir Þorbjörg en hún fór fyrst á Smáþjóðaleika þegar Ísland hélt þá síðast árið 1997.
„Mér finnst ótrúlega mikilvægt að geta verið hér. Þar sem ég var ekki lengur í landsliðsstússinu langaði mig að taka þátt hinu megin. Stemmingin í kringum leikana, fólkið og ýmislegt annað hrífur mann með sér."
Blakkeppnin fer fram í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal sem útbúin hefur verið sem blakhöll með sérstökum dúk og áhorfendasvæðum. Þar starfar Þorbjörg, sem flestir þekkja sem Bobbu, sem aðstoðarvallarstjóri.
„Mitt hlutverk er að sjá til þess að allt sé í lagi á vellinum sjálfum fyrir bæði æfingar og leiki.
Ég kom suður á laugardagskvöld og fór beint af flugvellinum og hingað upp í höll. Ég er mætt hér klukkan 7:30 og fer út þegar dagurinn er búinn í húsinu."
María Rún er á móti á sínum fyrstu leikum. Hún var í æfingahóp landsliðsins þegar ljóst var að hún kæmist ekki í lokahópinn gaf hún kost á sér til starfa.
„Ég var því miður ekki í hópnum en mig langaði að sjá leikana og gera eitthvað eftir að hafa fylgst með þeim árum saman í gegnum mömmu," segir María sem sækir bolta, afgreiðir í sjoppunni og sinnir öryggisgæslu.
„Mér líst vel á leikana. Það er gaman að fylgjast með keppninni og sjá hvernig liðunum gengur."
Bobba nýtur þess einnig að geta fylgst með keppninni úr nálægð. „Ég fæ að sjá allt og upplifa sem er ótrúlega gaman. Það er ekki oft sem við fáum tækifæri til að sjá svona mörg lönd spila hér auk þess sem við getum horft á gott blak."
Íslenska kvennalandsliðið hóf leik í gær með 3-0 sigri á Liechtenstein en í liðinu eru Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, fyrirliði og Erla Rán Eiríksdóttir sem báðar eru uppaldar á Norðfirði. Liðið mætir San Marínó klukkan 18:00 í dag.
Karlaliðið hefur leik í kvöld gegn Lúxemborg klukkan 20:30 en þar eru Þróttararnir Matthías Haraldsson og Valgeir Valgeirsson.
Aðspurð að því hvort María verði ekki í hópnum á næstu leikum í San Marínó svarar hún einfaldlega: „Jú, ég verð í liðinu eftir tvö ár."