Knattspyrna: Þrír austfirskir heimasigrar - Huginn tapaði sínum fyrsta leik í sumar

fotbolti kff leiknir bikar 0033 webÁ laugardag voru austfirsku liðin í eldlínunni í 1. og 2. deild karla. Fjarðabyggð, Leiknir og Höttur unnu góða heimasigra, en Huginsmenn töpuðu sínum fyrsta leik gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ.

Fjarðabyggð tók á móti Haukum á Norðfjarðarvelli. Brynjar Jónasson heldur áfram að raða inn mörkum og hann skoraði fyrsta mark leiksins eftir á 21. mínútu. Viktor Örn Guðmundsson bætti svo við öðru marki á 45. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki. Fjarðabyggð situr í 5. sæti deildarinnar eftir fimm umferðir með 9 stig.

Leiknir bauð upp á flugeldasýningu gegn Njarðvík í Fjarðabyggðarhöllinni. Almar Daði Jónsson og Björgvin Stefán Pétursson komu Leiknismönnum í 2-0 innan tíu mínútna frá upphafsspyrnu leiksins. Fleiri mörk voru ekki skoruð fyrr en á 76. mínútu þegar Björgvin Stefán bætti við sínu öðru marki og þar með voru úrslitin svo gott sem ráðin.

Leiknismenn létu samt ekki kyrrt liggja heldur gjörsamlega kafsigldu Njarðvíkinga á síðustu tíu mínútunum. Björgvin Stefán bætti við tveimur mörkum til viðbótar og skoraði alls fjögur stykki. Þá skoraði Julio Martinez afar snoturt aukaspyrnumark, sem sjá má hér að neðan.
Huginsmenn töpuðu sínum fyrsta leik í deildinni þegar þeir fóru í Mosfellsbæ og mættu Aftureldingu. Huginn komust yfir í upphafi síðari hálfleiks þegar Rúnar Freyr Þórhallsson skoraði. Afturelding svaraði hinsvegar með tveimur mörkum og þar við sat.

Næsti leikur Hugins er þann 13. júní, en þá taka þeir einmitt á móti nágrönnum sínum í Leikni í alvöru nágrannaslag á Seyðisfjarðarvelli.

Feðgar léku saman í sigri Hattar

Hattarmenn tóku á móti Sindra í fremur bragðdaufum knattspyrnuleik á laugardag. Þessi lið mættust í bikarnum um daginn og þá náðu þau að spila 120 mínútur án þess að skora hjá hvort öðru og það var ekki mikið um opin færi núna heldur.

Afskaplega fátt gerðist í fyrri hálfleik. Sindramenn sluppu einu sinni í gegnum vörn Hattar en þá var Sigurður Hrannar í marki Hattar vel á verði og lokaði á færið. Hattarmenn voru sterkari aðilinn og náðu oft að koma sér í álitlegar stöður, en mistókst að reka endahnútinn á sóknir sínar. Hættulegasta færi þeirra var sennilega fyrirgjöf eða skot Arons Gauta af vinstri kantinum, sem endaði í utanverðri stönginni.

Um miðjan síðari hálfleik kom Elvar Þór Ægisson inn á hjá Hetti í fyrsta sinn í sumar. Hann var ekki búinn að vera nema mínútu inni á vellinum þegar hann var búinn að skora. Hann fékk boltann á vallarhelmingi Sindra, keyrði á vörnina og fór hrikalega illa með tvo leikmenn Sindra á vítateignum áður en hann skokkaði inn í teiginn og lagði boltann í netið. Virkilega laglegt mark hjá Elvari og ljóst að það er fengur fyrir Hattarmenn að fá hann til baka úr meiðslum.

Skömmu eftir markið fékk Sigurður Hrannar markvörður Hattar þungt höfuðhögg eftir viðskipti við sóknarmann Sindra. Hann fór út af á börum og var síðar fluttur á Neskaupsstað til aðhlynningar. Anton Helgi Loftsson, sem venjulega er varamarkvörður Hattar, er staddur erlendis og því var Magnús Jónasson á bekknum hjá Hetti, en Magnús er á 46. aldursári og hafði ekki leikið deildarleik fyrir Hött síðan árið 2005.

Sonur Magnúsar, Steinar Aron, hafði skömmu áður komið inn á sem varamaður og því léku þeir feðgar saman á laugardag. Ekki á hverjum degi sem það gerist.

Sindramenn settu töluverða pressu á lið Hattar á síðustu andartökum leiksins en náðu ekki að jafna metin og niðurstaðan varð því 1-0 sigur Hattar, sem eru að rétta úr kútnum eftir erfiða byrjun í deildinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar