„Vel gert“: Umdeilt hrós þjálfara Einherja
Vala Ormarsdóttir, leikmaður kvennaliðs Fjarðabyggðar, varð fyrir slæmum meiðslum í leik liðsins gegn Einherja á Norðfjarðarvelli síðastliðið fimmtudagskvöld. Hún lenti þá í hörðu samstuði við leikmann gestanna og lá óvíg eftir.Töluverðir eftirmálar urðu af þessu atviki á samfélagsmiðlinum Facebook. Erla Ormarsdóttir, systir Völu, ritaði harðorðan pistil þar sem hún lýsti yfir mikilli óánægju með framgöngu Sigurðar Donys Sigurðssonar, þjálfara Einherja í kjölfar atviksins.
Erla sagði á Facebook síðu sinni: „Í fótboltaleik í gær var brotið á Völu systur minni eins og stundum gerist í fótbolta, því miður slasaðist hún illa. En það sem gerir mig svo reiða er framkoma þjálfara mótherjans, sem tók sig til og hrósaði leikmanni sínum fyrir verknaðinn þar sem Vala lá óvíg á vellinum og engdist um af sársauka.“
Erla skoraði í pistli sínum á forsvarsmenn Einherja og þjálfarann Sigurð Donys að biðjast afsökunar á þessari framgöngu. Sigurður Donys var ekki lengi að bregðast við og baðst afsökunar á óheppilegu orðalagi sínu í kjölfar atviksins. Hann hafi ekki ætlað að hrósa fyrir brotið heldur fyrir baráttu síns leikmanns og að á þeim tímapunkti hafi hann ekki vitað að Vala væri illa slösuð.
Magnús Már Þorvaldsson, formaður Einherja, ritar einnig um málið á Facebook og skilar batakveðjum til Völu. Hann segist skilja sjónarmið Erlu, að því leyti að hugur hennar dvelji hjá systur hennar, sem sennilega mun ekki leika meiri knattspyrnu í sumar. Það sé ákaflega miður og hafi ekki staðið til, en í upprunalegri færslu Erlu, sem nú hefur verið fjarlægð af vefnum, veltir hún þeirri spurningu upp hvort skilaboð þjálfara Einherja til sinna leikmanna hafi verið að „taka hana úr umferð“.
Það segir Magnús Már fráleitt: „Leikmaður Einherja verður ekki sakaður um meiðslin, hvað þá að hann hafi haft að markmiði að særa/meiða/slasa andstæðing sinn. ALDREI. Ég hygg að ég þurfi ekki að rökstyðja mál mitt því staðhæfingin er svo fráleit að því minna sem um málið er rætt, þeim mun betra.“
Austurfrétt heyrði í Sigurði Donys og hann segir málið mjög leiðinlegt. Atvikið hafi verið mjög óheppilegt slys. „Það er enginn þjálfari að fara að hrósa leikmanni sínum fyrir að meiða andstæðing. Hún sakar mig um að leggja upp með það að meiða leikmenn andstæðinganna, en það vita það nú allir að ég geri ekki slíkt. Ég hef lent í erfiðum meiðslum sjálfur og finnst alltaf leiðinlegt þegar leikmenn meiðast,“ sagði Sigurður.
„Það er grátlegt að þetta hafi farið svona og ég óska Völu góðs bata, hún var alveg frábær í þessum leik og Fjarðabyggð er að mínu mati að missa þarna sinn öflugasta leikmann,“ sagði Sigurður sem segist ennfremur hafa talað við Völu og boðið fram aðstoð sína við að finna góðan sjúkraþjálfara og annað slíkt.
Erla skrifar aðra færslu á Facebook eftir að hún tók fyrri skrif sín þaðan út. Þar segist hún hafa verið reið þegar hún skrifaði fyrri færsluna og segir það virðingarvert að Sigurður Donys hafi beðið systur sína afsökunar á ummælunum.
Þá vill hún koma því á framfæri að pistillinn hafi á engan hátt beinst að stúlkunni sem framkvæmdi tæklinguna, heldur hafi málið alltaf snúist um illa tímasett „hrós“ þjálfarans, sem níst hafi inn að beini hjá ungum slösuðum leikmanni.
Mynd: Sigurður Donys Sigurðsson, þjálfari kvennaliðs Einherja, í leik með karlaliðinu