Viðar Örn valinn þjálfari ársins
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari sigurliðs Hattar í fyrstu deild karla í körfuknattleik var valinn þjálfari ársins í deildinni á uppskeruhátíð Körfuknattleikssambands Íslands sem fram fór fyrir skemmstu.Undir stjórn Viðars vann liðið sextán leiki en tapaði fimm og endaði með fjögurra stiga forskot á næstu lið. Árangur liðsins kom nokkuð á óvart þar sem fjórir af fimm byrjunarliðsmönnum yfirgáfu félagið áður en tímabilið hófst og skörð flestra fylltu ungir heimamenn. Aðeins þrír þjálfarar fengu atkvæði í kjörinu.
Þá var Hreinn Gunnar Birgisson valinn í lið ársins. Hann byrjaði alla leiki Hattar og skoraði 11,7 stig að meðaltali í leik. Viðar Örn og Ragnar Gerald Albertsson hlutu einnig atkvæði í því kjöri. Einungis íslenskir leikmenn voru í kjöri.
Félagið hefur samið áfram við Bandaríkjamanninn Tobin Carberry sem var besti leikmaður liðsins í vetur. Hann skoraði 34,9 stig, tók 11 fráköst og gaf 5,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í fyrstu deildinni í vetur.
Tobin var valinn mikilvægasti leikmaðurinn þegar verðlaun voru veitt á lokahófi körfuknattleiksdeildar Hattar fyrri skemmstu. Ásmundur Hrafn Magnússon var valinn efnilegastur, Hreinn Gunnar besti varnarmaðurinn, Ragnar Gerald besti sóknarmaðurinn, Nökkvi Jarl Óskarsson fékk viðurkenningu sem X-faktorinn og Daði Fannar Sverrisson sem dugnaðarforkruinn.
Hjá kvennaliði Hattar fékk Kristín Rut Eyjólfsdóttir viðurkenningu sem besti sóknarmaðurinn, Eydís Hildur Jóhannsdóttir sem besti varnarmaðurinn og Signý Þrastardóttir sem dugnaðarforkurinn.
Í drengjaflokki var Brynjar Snær Grétarsson valinn besti sóknarmaðurinn, Einar Páll Þrastarson besti varnarmaðurinn, Kristófer Sigurðsson dugnaðarforkurinn og Ingólfur Örn Jóhansson fékk viðurkenningu fyrir mestu framfarirnar.
Þá var Guðný Margrét Hjaltadóttir Höttur ársins fyrir frábær störf í þágu deildarinnar síðustu ár.
Hreinn Gunnar og Viðar Örn með viðurkenningar sínar.