Hulunni svipt af merki Fjórðungsmótsins

FM15 logo-01 webSkipuleggjendur Fjórðungsmóts Austurlands í hestaíþróttum kynntu í vikunni merki mótsins sem listamaðurinn Pétur Behrens hannaði. Úrtökumót standa yfir fyrir mótið sem búist er við að um eitt þúsund gestir sæki.

„Pétur endurhannaði merkið sem notað var fyrir mótið 2007 og við erum mjög ánægð með það. Það sýnir þrjá hesta, einn á skeiði og annan á tölti auk þess sem græni Freyfaxaliturinn kemur sterkt fram í því,“ segir Bjarki Þorvaldur Sigurbjartsson.

Búist er við um eitt þúsund gestum víða af landinu á mótið sem fram fer fyrstu helgina í júlí á svæðis félagsins við Stekkhólma.

Þar eru fyrirhugaðar framkvæmdir í næstu viku. „Þá leggjum við á völlinn sem er stærsta verkið í undirbúningnum. Auk þess munum við mála húsið okkar og slá tjaldsvæðið og brekkuna en við fáum aðstoð frá bænum við það.“

Þá verður gengið í að finna sjálfboðaliða til að starfa við mótið en helstu lykilstarfsmenn eru klárir. Nokkrir sjálfboðaliðar eru þó komnir í blað, meðal annars hafa nágrannar úr Blæ á Norðfirði gefið sig fram.

Jón Björnsson var nýverið kynntur sem framkvæmdastjóri, Bjarki verður sjálfur mótsstjóri og fyrrum formenn félagsins, þau Bergur Hallgrímsson og Elísabet Sveinsdóttir verða vallarstjórar og þulir. Þá verður Hulda Gústafsdóttir, ein þekktasta hestakona landsins, einnig þulur. Dómar mótsins hafa allir landsréttindi og koma utan þess svæðis sem mótið nær yfir.

Takmarkaður keppendafjöldi er á mótinu og því eru haldin úrtökumót. Búið er að því hjá Blæ og keppt á Hornafirði um helgina en Freyfaxi heldur sitt um næstu helgi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar