Knattspyrna: Vindurinn hafði mikil áhrif á grannaslaginn - Fjarðabyggð rúllaði yfir Gróttu

IMG 1486Austfirsku knattspyrnuliðin höfðu í nógu að snúast um nýliðna helgi. Fjarðabyggð, Höttur og Einherji unnu sína leiki, en Huginn og Leiknir mættust á Fellavelli og gerðu jafntefli í mjög kaflaskiptum leik.


Fjarðabyggð heldur áfram á góðu róli í 1. deildinni og unnu 0-3 útisigur gegn Gróttu á Seltjarnarnesi. Nik Anthony Chamberlain kom Fjarðabyggð yfir í fyrri hálfleik og Elvar Ingi Vignisson og Sveinn Fannar Sæmundsson bættu við tveimur mörkum í þeim seinni. Fjarðabyggð situr eftir sigurinn í 4. sæti deildarinnar.

Hattarmenn sóttu góðan sigur gegn Ægi í Þorlákshöfn og unnu með tveimur mörkum gegn einu. Högni Helgason skoraði bæði mörk Hattar, en sigurmarkið kom undir lok leiks. Þorlákshafnarbúar fara sennilega að verða þreyttir á því að fá austfirsk lið í heimsókn, enda skoraði Huginn líka sigurmark í uppbótartíma í Þorlákshöfn í maí.

Einherji vann góðan 4-1 sigur gegn KFS frá Vestmannaeyjum á laugardaginn, en þetta var fyrsti sigur Einherja í deildinni í sumar. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði tvö mörk fyrir Einherja og Todor Hristov og Gunnlaugur Bjarnar Baldursson bættu við einu hvor.

Vindurinn í aðalhlutverki á Fellavelli
Veðrið setti mark sitt allverulega á leik Hugins og Leiknis, sem fram fór á Fellavelli á laugardag, en töluverður vindur var á annað markið, sem gerði leikmönnum á köflum afar erfitt fyrir. Spánverjinn Estanislao Plantada Siurans dæmdi leikinn, sem var skemmtilegt í ljósi þess bæði lið hafa spænskumælandi leikmenn innanborðs.

Lítið var um færi í fyrri hálfleik. Leiknismenn léku undan vindi, en þrátt fyrir það voru Huginsmenn meira með boltann og stjórnuðu gangi leiksins. Á 37. mínútu kom fyrsta alvöru dauðafæri leiksins, en það fékk Almar Daði Jónsson framherji Leiknis. Hann fór hinsvegar illa með færið og hitti ekki boltann í góðri stöðu í teignum.

Skömmu síðar fengu Huginsmenn dauðafæri þegar Pétur Óskarsson renndi sér á fyrirgjöf í teignum en boltinn fór hársbreidd framhjá stönginni.

Undir lok fyrri hálfleiks skoruðu Leiknismenn tvö mörk, eiginlega alveg upp úr þurru. Það fyrra var sérlega glæsilegt, en þá tók Fernando Garcia Castellanos boltann á lofti í teignum og þrumaði honum í netið. Atli Gunnar í marki Hugins hreyfði hvorki legg né lið, enda skotið firnafast. Huginsmenn virtust láta þetta mark slá sig algjörlega út af laginu og Ferran Garcia skoraði annað mark áður en flautað var til leikhlés og Leiknismenn héldu inn í klefa með 0-2 forystu.

Í fyrri hálfleik tókst Huginsmönnum ágætlega að spila boltanum upp völlinn gegn vindinum. Það áttu Leiknismenn hinsvegar í stökustu erfiðleikum með. Nánast allar markspyrnur Leiknis fóru upp í vindinn og þaðan út fyrir hliðarlínu. Sókn Hugins var því eiginlega látlaus í síðari hálfleik.

Á 53. mínútu skoraði Miguel Gudiel Garcia glæsilegt mark fyrir Huginsmenn. Hann lét vaða fyrir utan teig eftir að hafa dansað með boltann inn á völlinn og knötturinn fór í fallegum boga með vindinum yfir Bergstein í marki Leiknis.

Huginsmenn náðu svo að jafna leikinn þegar tæpar 20 mínútur lifðu leiks. Þá skoraði miðvörðurinn stæðilegi, Orri Sveinn Stefánsson með skalla eftir mikinn barning í teignum í kjölfar hornspyrnu. Þetta var fyrsta mark Orra fyrir Huginn, en hann er á láni frá Fylki.

Flestir viðstaddir áttu von á að nú myndu leikmenn Hugins klára leikinn, en það gerðist ekki. Leikurinn róaðist mjög eftir að Huginsmenn jöfnuðu og lítið var um hættuleg færi. Huginsmenn fengu nokkrar aukaspyrnur á álitlegum stöðum en náðu ekki að færa sér þær í nyt.

2-2 jafntefli varð því niðurstaðan og miðað við gang leiksins má segja að það sé nokkuð sanngjarnt. Huginsmenn eru þó eflaust svekktir með að hafa ekki náð að troða inn einu marki í viðbót undir lok leiks.

Orri Sveinn miðvörður Hugins var maður leiksins að mati Austurfréttar. Það er ekki við hann að sakast í mörkunum sem Leiknir skoraði, hann sýndi lipra takta í vörninni og spilaði boltanum virkilega vel frá sér auk þess sem hann skoraði jöfnunarmarkið.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.