Fjarðabyggð tekur á móti Val í bikarnum í kvöld: Kveikt þarf að vera á hausnum frá byrjun

fotbolti kff leiknir bikar 0200 webFjarðabyggð tekur á móti úrvalsdeildarliði Vals í 16 liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 18:00 í dag. Þjálfari Fjarðabyggðar segir gaman að fá jafn sterkt lið og Val í heimsókn en heimamenn eru tilbúnir að koma gestum sínum óþægilega á óvart.

„Okkur líst vel á leikinn því það er gaman að fá svona gott lið austur. Leikurinn er ákveðinn prófsteinn á hvort við getum ekki hvert þeim skráveifu," segir Brynjar Þór Gestsson, þjálfari Fjarðabyggðar.

„Ef ekki er kveikt á hausnum frá byrjun þá getur farið illa. Það er stundum talað um að lifa af fyrstu 25 mínúturnar og það er þá skref að 90 mínútna leik. Vonandi náðum við að koma þeim aðeins á óvart í kvöld."

Valsliðið er í fjórða sæti úrvalsdeildar eftir að hafa unnið síðustu þrjá leiki en Fjarðabyggð er í sama sæti deild neðar. Liðin mættust tvisvar fyrir Íslandsmótið, fyrst vann Valur 0-2 á Reyðarfirði í Lengjubikarnum en æfingaleik viku fyrir mót að Hlíðarenda lauk með 3-3 jafntefli.

Brynjar Þór segir muninn á deildunum fyrst og fremst felast í hraða og að úrvalsdeildarliðin refsi grimmilegar fyrir mistök eða þegar mótherjinn missi boltann á slæmum stað. Því sé mikilvægt að ljúka sóknunum og skilja ekki eftir opin svæði þótt liðið sæki.

Þrátt fyrir muninn býst Brynjar ekki við að Valsmenn hvíli sína sterkustu menn. „Þeir gætu hvílt 1-2 menn því þeir eiga leik aftur á sunnudag en ég myndi í þeirra sporum ekki taka sénsa í svona leik, þeir eru ekki að spila við neitt þriðju deildar lið."

Fjarðabyggð leikur líka á sunnudaginn, klukkan eitt gegn Selfossi og Brynjar segist hugsa um þann leik þegar hann stilli upp liðinu.

„Við einbeitum okkur að þessum leik í dag en þurfum líka að horfa fram í tímann, einkum þegar 60 tímar eru á milli leikja og hinn andstæðingurinn hefur ekki spilað í níu daga, en menn læra líka af því að spila þétt."

Brynjar var að leggja lokahönd á undirbúninginn þegar Austurfrétt ræddi við hann og lá yfir myndbandsupptökum af Valsliðinu. Hann sagðist ekki vera tilbúinn að kynna byrjunarlið kvöldsins en ekki sé von á miklum breytingum.

Helsti höfuðverkurinn er fjarvera Milosar Ivankovic sem nef- og kinnbeinsbrotnaði í slæmu samstuði í síðasta leik. Útlit er fyrir að hann verði frá í töluverðan tíma sem gæti kallað á að Fjarðabyggð þyrfti að leita sér eftir miðverði. Fyrirliðinn Stefán Eysteinsson kemur aftur inn í hópinn eftir meiðsli.

Brynjar vonast eftir að knattspyrnuáhugamenn fjölmenni í höllina í kvöld. „Við ætlum ekki að labba út á „við-höfum-engu-að-tapa-kjaftæðinu". Við höfum verið slegnir niður tvisvar í sumar en alltaf staðið upp aftur með kassann þaninn. Úrslitin í kvöld hafa því ekkert að segja fyrir framhaldið þótt við ætlum okkur að gera Valsmönnum skráveifu."

Þá mætast Höttur og Fjarðabyggð í 1. deild kvenna í kvöld. Leikurinn verður á Fellavelli og hefst klukkan 20:00.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.