Knattspyrna: Öruggur sigur Vals á Fjarðabyggð

fotbolti kff valur bikar kk 0009 webFjarðabyggð er úr leik í bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir 0-4 tap gegn úrvalsdeildarliði Vals í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. Höttur og Fjarðabyggð gerðu markalaust jafntefli í fyrstu deild kvenna.

Leik Fjarðabyggðar og Vals var seinkað um kortér vegna óhóflega bjartsýnnar ferðaáætlunar Valsmanna sem komu með kaffivélinni austur í Egilsstaði og lentu um klukkustund fyrir leik.

Þeir fengu samt nægan tíma til að hita upp og tóku völdin í leiknum strax á fyrstu mínútu. Þeir héldu boltanum en Fjarðabyggð bakkaði. Langar sendingar fram, ætlaðar Brynjari Jónssyni, misstu hins vegar almennt marks og varnarmenn Vals svitnuðu ekki af þeim.

Fyrsta markið kom strax á fimmtándu mínútu þegar Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði eftir góða stungusendingu Patricks Pedersen. Kile Kennedy varði reyndar fyrra skot Kristins en boltinn hrökk aftur í hann og þaðan í netið.

Daði Bergsson skoraði annað mark Vals á 40. mínútu. Aftur varði Kile fyrra skotið en boltinn féll fyrir Daða sem kallaði boltann inn.

Valsmenn fengu fleiri fín færi í fyrri hálfleik, einn skala í slá og annað færi fyrir Pedersen. Besta tilraun Fjarðabyggðar í hálfleik var langskot Nik Chamerlain sem var varið í horn.

Leikurinn var búinn eftir fimm mínútur í seinni hálfleik þegar Kristinn Freyr vann boltann af Hector Pena Bustamante, miðverði Fjarðabyggðar, í teignum og renndi honum á Pedersen sem skoraði þriðja mark Vals.

Valsmenn áttu síðan tvö stangarskot áður en Haukur Ásberg Hilmarsson skoraði fjórða markið í uppbótartíma eftir sprett varnarmannsins Thomasar Gristensen upp völlinn.

Strax eftir þriðja mark Vals var Nik skipt út af en hann er þjálfari kvennaliðs Fjarðabyggðar sem mætti Hetti á Fellavelli í leik sem hófst tæpum tveimur tímum á eftir karlaleiknum.

Fjarðabyggð gekk heldur betur þar því stelpurnar fóru heim með 1-2 sigur. Freyja Viðarsdóttir skoraði fyrra mark þeirra með langskoti um miðjan seinni hálfleik og Hafrún Sigurðardóttir það næsta úr vítaspyrnu kortéri fyrir leikslok. Natalía Gunnlaugsdóttir minnkaði muninn fyrir Hött með marki í uppbótartíma.

Einherji tekur á móti Völsungi í kvöld í þriðju deild karla í leik sem hefst klukkan 20:00.

Í annarri deild tekur Höttur á móti KF á morgun á Fellavelli klukkan 16:00 og Leiknir á móti KV klukkan 15:30 í Fjarðabyggðarhöllinni á sunnudag. Huginn heimsækir Njarðvík á morgun.

Í fyrstu deild karla tekur Fjarðabyggð á móti Selfoss í leik sem hefst klukkan 13:00 á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar