Álkarlakeppni á Austurlandi
Í sumar verður hægt að skora rækilega á sjálfan sig og taka þátt í nýrri þriggja þrauta keppni á Austurlandi, Álkarlinum, sem er haldin af UÍA í samstarfi við Alcoa Fjarðaál.Keppt verður í sundi, hlaupi og hjólreiðum í þremur mismunandi keppnum á Austurlandi og þeir sem ljúka öllum þremur þrautunum á sama sumrinu fá að prýða sig sæmdarheitinu Álkarl eða Álkona.
Nafngift keppninnar er annarsvegar skírskotun í aðalstyrktaraðila hennar, Alcoa Fjarðaál og hinsvegar í þríþrautina Járnkarlinn, en í járnkarlsfyrirkomulagi er einmitt keppt í sundi, hjólreiðum og hlaupi.
Þrautirnar sem Álkörlum og Álkonum er gert að þreyta eru Urriðavatnssund, Barðsneshlaup og Tour de Ormurinn.
Í Urriðavatnssundi þurfa Álkarlar að synda 2,5 km, en Urriðavatnssundið fer fram þann 25. júlí. Keppendur í Álkarlinum þurfa einnig að hlaupa 27 km utanvegaleið í Barðsneshlaupi á Norðfirði, þann 1. ágúst. Síðasta þrautin er svo hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn, sem fram fer 15. ágúst. Þar þurfa Álkarlar að hjóla 103 km leið umhverfis Lagarfljót.
Einnig verður boðið upp á Hálfkarl en þar synda þátttakendur 1,25 km í Urriðavatnssundi, hlaupa 13 km í Hellisfjarðarhlaupi (sem er hluti af Barðsneshlaupi) og hjóla 68 km í Tour de Orminum. Þeim er veittur viðurkenningargripur og sæmdarheitið Hálfkarl eða Hálfkona.
Áhugavert verður að fylgjast með því hvort margir hraustir Austfirðingar skori á sjálfa sig í sumar og reyni við allar þrjár þrautirnar.
Mynd: Frá hjólreiðakeppninni Tour de Ormurinn árið 2012