Knattspyrna: Huginsmenn létu eitt mark duga til sigurs - Myndir
Austfirsku liðin voru á ferð og flugi um helgina og voru fáir leikir spilaðir í fjórðungnum. Karlalið Fjarðabyggðar, Leiknis og Einherja áttu útileiki fyrir sunnan, en Huginsmenn léku á heimavelli. Þá fóru Hattarstúlkur á Akureyri og gerðu atlögu að því að ná í sín fyrstu stig í sumar.Fjarðabyggð mætti Þrótti R. í toppslag í 1. deildinni á gervigrasvellinum í Laugardal. Fjarðabyggðarliðið átti afleitan fyrri hálfleik og voru 2-0 undir í hálfleik. Seinna mark Þróttar var eitt skrautlegasta sjálfsmark síðari ára í íslenska boltanum, en þá átti Bjarni Mark Antonsson sendingu til baka á Kile Kennedy í markinu, sem Kile missti á einhvern ótrúlegan hátt undir sig og inn í markið. Þetta ótrúlega atvik og hin mörkin úr leiknum má sjá á vefsíðu SportTV sem sýndi leikinn í beinni útsendingu.
Lið Fjarðabyggðar spýtti aðeins í lófana í síðari hálfleik og stjórnaði gangi leiksins. Brynjar Jónasson minnkaði muninn á 88. mínútu en það var of seint í rassinn gripið fyrir Fjarðabyggðarliðið, sem er enn í 3. sæti deildarinnar eftir þessi úrslit.
Fyrsta tap Leiknis staðreynd – Löng helgi hjá Einherjamönnum
Leiknismenn töpuðu sínum fyrsta leik í 2. deildinni í sumar á laugardag er þeir fóru í heimsókn til toppliðs ÍR í Breiðholti. ÍR-ingar komust yfir snemma leiks en Julio Martinez jafnaði metin fyrir Leikni undir lok fyrri hálfleiks. Jafnt var allt fram á 83. mínútu, en þá bættu heimamenn við öðru marki og hirtu öll stigin.
Einherjamenn fóru suður um helgina og léku tvo leiki í 3. deildinni. Á föstudag unnu þeir góðan 0-3 sigur gegn Berserkjum. Bjartur Aðalbjörnsson skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og Todor Hristov bætti við þriðja markinu undir lok leiks.
Á sunnudag fóru Vopnfirðingar svo í Sandgerði og mætti liði Reynis. Þar reyndust heimamenn sterkari og unnu 3-2 sigur. Todor Hristov skoraði bæði mörk Einherja, sem sitja í 5. sæti deildarinnar eftir úrslit helgarinnar.
Hattarstúlkur eru enn án stiga í C-riðli 1. deildar kvenna. Þær fóru í heimsókn til Hamranna á Akureyri síðasta föstudag og töpuðu 1-0, en mark heimaliðsins kom á 59. mínútu. Næsti leikur þeirra er gegn Einherja á heimavelli næstkomandi fimmtudag, en þar mætast tvö neðstu lið riðilsins.
Fátt um fína drætti á Seyðisfirði
Á laugardag mættust Huginn og Knattpyrnufélag Fjallabyggðar á Seyðisfjarðarvelli. Lið KF hefur verið að sækja í sig veðrið eftir brösuga byrjun og skelltu meðal annars Hetti á Fellavelli fyrir rúmri viku síðan. Huginsmenn hafa hinsvegar verið á góðu róli og héldu uppteknum hætti á laugardaginn.
Fyrsta og eina mark leiksins kom eftir fimm mínútna leik, en þá skoraði Fernando Calleja með góðu skoti undir markmann gestanna eftir að hafa sloppið í gegn um vörnina. Þetta eina mark létu Huginsmenn duga til sigurs.
Fátt var um fína drætti í leiknum og Huginsliðið var ekki að spila sinn besta leik. Áhorfendur sem voru að gera sér vonir um markaveislu eftir að Huginsmenn komust yfir í upphafi leiks fengu þær óskir ekki uppfylltar og lítið var um marktækifæri yfir höfuð.
Mögulega mun taka einhvern tíma fyrir liðið að venjast því að leika á Seyðisfjarðarvelli, sem er ekki alveg jafn sléttur og gervigrasið á Fellavelli. Leikmenn beggja liða áttu raunar í töluverðum erfiðleikum með að hemja boltann á vellinum og ná upp góðu spili og það setti mark sitt á leikinn. Mikið var um háar sendingar fram á við hjá báðum liðum og leikurinn var hvorki fallegur né sérlega skemmtilegur.
Sigur Hugins var þó ekki í neinni hættu, þeir sóttu meira og í þau fáu skipti sem KF náði að ógna marki Hugins var Atli Gunnar Guðmundsson vandanum vaxinn í markinu.
Blazo Lalevic átti góðan dag á miðri miðjunni hjá heimamönnum og Fernando Calleja var einnig afar sprækur.
Þessi sigur þýðir það að Huginsmenn skjótast uppfyrir nágranna sína í Leikni og eru nú í 2. sæti deildarinnar, þremur stigum frá toppliði ÍR.