Knattspyrna: Austfirsku liðin hirtu 9 stig af 9 mögulegum í gærkvöldi – Umfjallanir, myndir og myndbönd

QM1T6703Í gærkvöldi var leikin heil umferð í 2. deild karla í knattspyrnu. Huginn tók á móti KV á Seyðisfirði, Leiknismenn léku við Sindra í Fjarðabyggðarhöllinni og Hattarmenn fóru í ferðalag norður, þar sem þeir mættu Dalvík/Reyni. Skemmst er frá því að segja að öll austfirsku liðin unnu leiki sína.


Hattarmenn lentu í smá vandræðum með Dalvíkinga, sem eru neðstir í deildinni. Dalvík/Reynir komst yfir eftir rúmar tuttugu mínútur, en Runólfur Sveinn Sigmundsson jafnaði metin fyrir Hött rétt áður en flautað var til leikhlés.

Brynjar Árnason kom Hetti síðan yfir á 59. mínútu og Jovan Kujundzic skoraði þriðja markið á 73. mínútu og innsiglaði 1-3 sigur Hattar gegn botnliðinu. Mikilvæg stig í sarpinn hjá Hattarmönnum, sem ná með sigrinum að skjóta sér upp í fimmta sæti deildarinnar með 12 stig að 9 umferðum loknum. Pakkinn fyrir neðan Hattarmenn er hinsvegar þéttur og einungis eru fimm stig í fallsæti.

Blautur og kaldur Huginssigur á Seyðisfirði
Svo skemmtilega vildi til að leikur Hugins og KV var spilaður kl. 17, til að gefa KV mönnum færi á að fljúga heim að leik loknum. Því gat Austurfrétt fylgst með gangi mála í leiknum á Seyðisfirði og einnig í leik Leiknis og Sindra á Reyðarfirði, sem hófst kl. 20.
Það var blautt og kalt á Seyðisfirði í gær, auk þess sem töluverður vindur var á annað markið. Seyðfirðingar byrjuðu á því að sækja út fjörðinn, á móti vindinum og náðu oft á tíðum upp ágætu spili, á meðan að gestirnir úr Vesturbænum áttu í erfiðleikum með að hemja knöttinn á rennblautum vellinum.

Huginsmenn áttu nokkur ágæt færi í fyrri hálfleik. Eftir örfáar mínútur komst bakvörðuinn Elmar Bragi Einarsson í dauðafæri, en þurfti að teygja sig í boltann og náði ekki að stýra honum í átt að auðu markinu. Marko Nicolic átti stórhættulega aukaspyrnu sem var við það að detta í vinkilinn en markvörður KV var vandanum vaxinn og blakaði knettinum yfir. Fernando Calleja komst líka einn gegn markverði en skaut naumlega framhjá markinu.

Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleik. Völlurinn var sem fyrr segir afar blautur og leikmenn renndu sér mikið í tæklingar og baráttan á miðjunni var hörð.

Í upphafi síðari hálfleik skoraði Ingólfur Árnason eina mark leiksins. Þá fengu Huginsmenn aukaspyrnu úti á kanti, sem Ingólfur tók. Spyrnan var góð, svo góð raunar að hún flaug yfir allan pakkann á teignum og beint upp í samskeytin með smá hjálp frá vindinum. Markvörður KV hefði eflaust viljað gera ögn betur og koma í veg fyrir þetta mark, en þó var mjög erfitt að eiga við þennan bolta.

Skömmu síðar fengu Huginsmenn vítaspyrnu þegar Miguel Gudiel Garcia fór niður eftir tæklingu frá leikmanni KV. Vesturbæingar vildu meina að hann hefði farið full auðveldlega niður, en ágætur dómari leiksins var viss í sinni sök. Marko Nicolic steig á punktinn, en markvörður KV sá við honum og gullið tækifæri Seyðfirðinga til að klára leikinn fór forgörðum.

Eftir þetta kom smá spenna í leikinn, enda 1-0 ekki örugg forysta. Huginsmenn voru samt miklu sterkari aðilinn, en náðu ekki að reka smiðshöggið á sóknir sínar. KV reyndu að sækja og jafna leikinn en það gekk ekkert alltof vel hjá þeim. Miðja og vörn Hugins stóðu vaktina vel og sigldu góðum sigri í höfn.

Leikmaður KV fékk að líta beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á miðjum vellinum undir lok leiksins og skömmu síðar var flautað af.

Sigur Hugins var verðskuldaður og þægilegur, KV áttu fá færi og áttu ekki skilið neitt út úr þessum leik. Besti leikmaður Hugins var sennilega Ingólfur Árnason, hann skoraði markið sem skildi liðin að, var duglegur til baka og sprækur fram á við. Einnig átti Elmar Bragi Einarsson afbragðsleik og leikmenn KV komust lítt áleiðis upp vinstri vænginn, þar sem hann stóð vaktina.

Brynjar: „Þeir ógna okkar marki aldrei neitt“
Brynjar Skúlason þjálfari Hugins var ánægður með liðið að leik loknum. „Mér fannst við bara ekkert vera spes í fyrri hálfleik, áttum í erfiðleikum með að senda boltann á milli okkar en síðan fannst mér við vera yfirburðalið í seinni hálfleik, náttúrlega með vindinn aðeins í bakið og svona, sem hjálpaði til.“

Brynjar sagði það þó hafa verið óþarflega spennandi að vinna bara 1-0. „Við klúðrum víti, skjótum í stöng og slá og þeir ógna okkar marki aldrei neitt. Ég held að markvörðurinn okkar hafi varið einu sinni og það var hérna þegar það voru fimm mínútur eftir af leiknum.“

Huginsmenn halda sig í 2. sæti deildarinnar með þessum sigri og hafa náð í 22 stig í 9 leikjum. Þeir eru þremur stigum á eftir toppliði ÍR, sem hefur enn ekki tapað leik.

 


Leiknismenn skoruðu fjögur gegn Hornfirðingum
Í Fjarðabyggðarhöllinni mættust Leiknir og Sindri og hófst leikur þar kl. 20. Það var ágætt að komast í Fjarðabyggðarhöllina eftir bleytuna á Seyðisfirði og vallar- og veðuraðstæður þar inni voru með ágætum eins og fyrri daginn. Þó hlýtur Fáskrúðsfirðingum að fara að lengja eftir því að geta spilað sína heimaleiki á Búðagrund – og eflaust fer að koma að því.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Leikni. Sindramenn komust yfir með góðu skoti utan teigs á 2. mínútu, þegar áhorfendur voru rétt að koma sér fyrir í stúkunni. Leiknismenn virkuðu aðeins slegnir út af laginu við markið, en á 23. mínútu náðu þeir að jafna leikinn þegar Hilmar Freyr Bjartþórsson klíndi boltanum í netið með góðu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf.

Á 35. náðu Leiknismenn yfirhöndinni þegar Paul Nicolescu reis hæst í teignum og fleytti boltanum í fjærhornið eftir aukaspyrnu. Gott mark hjá Nico, en Sindramenn voru afar ósáttir og vildu meina að hann hefði rekið olnbogann í andlitið á varnarmanni þeirra áður en hann skallaði boltann í netið. Dómari leiksins sá þó ekkert athugavert, en markið má sjá hér að neðan.


Eftir að Leiknismenn komust yfir tóku þeir öll völd á vellinum, en þeim tókst ekki að bæta við marki fyrir hálfleik þrátt fyrir góðar tilraunir.
Í síðari hálfleik héldu yfirburðir Leiknis áfram og voru Fáskrúðsfirðingar í nánast látlausri sókn. Þriðja markið kom á 52. mínútu, þegar Fernando Garcia Castellanos átti skot úr teignum sem fór í varnarmann og þaðan í netið framhjá varnarlausum markverði Sindra. Ekki fallegasta mark í heimi, en það taldi.

Sóknartilburðir Leiknis í síðari hálfleik voru gríðarlega skemmtilegir áhorfs og mörkin hefði getað orðið mun fleiri. Samvinna fremstu manna var til fyrirmyndar og það var alltaf hægt að finna lausan mann til að gefa á. Varnarlína Sindra spilaði frekar framarlega og það hentaði snöggum sóknarmönnum Leiknis vel.

Fjórða markið kom ekki fyrr en í uppbótartíma, en þá skallaði maður leiksins, Paul Bogdan Nicolescu, aðra hornspyrnu í netið og lokaniðurstaðan varð verðskuldaður 4-1 sigur. Sindraliðið náði ekki að halda í við Leikni í kvöld og þarf það kannski ekki að koma á óvart enda voru fimm leikmenn liðsins í agabanni, í kjölfar þess að hafa ekki farið að settum reglum á Humarhátíð á Hornafirði um liðna helgi.

Viðar: „Tók okkur smá tíma að ná áttum“
Viðar Jónsson, þjálfari Leiknis sagðist vera mjög ánægður með frammistöðu liðsins. „Þetta var þannig séð hörkuleikur, við byrjum ekki vel, fengum á okkur mark eftir tvær mínútur og síðan eftir það tók okkur smá tíma að ná áttum. Eftir að við jöfnum leikinn og síðan eftir að við komumst í 2-1 kemur meiri ró yfir okkar leik og við náum að spila okkar leik. Mér fannst ekki vera nein hætta eftir það, heldur bara spurning um að fá þriðja markið og klára þetta. Það gerðum við og þetta var bara glæsileg frammistaða hjá strákunum í dag,“ sagði Viðar.

Þetta var fyrsti sigur Leiknis í þremur leikjum og Viðar sagði að það hefði verið mjög gott að fá sigur í gær. Leiknismenn sitja nú þriðja sæti deildarinnar með 20 stig eftir 9 leiki.
QM1T6616QM1T6641QM1T6652QM1T6665QM1T6681QM1T6697QM1T6710

 

QM1T6588QM1T6101QM1T6105QM1T6114QM1T6166QM1T6176QM1T6178QM1T6204QM1T6207QM1T6214QM1T6270QM1T6280QM1T6306QM1T6326QM1T6355QM1T6361QM1T6383QM1T6423QM1T6430

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.