Eiga von á um 1000 gestum á Fjórðungsmót hestamanna - Myndir
Um tvö hundruð hestar eru skráðir til leiks á Fjórðungsmóti Austurlands í hestaíþróttum sem hófst á Stekkhólma í umsjá hestamannafélagsins Freyfaxa í dag. Formaður félagsins segir von á öllu því besta sem íslenski hesturinn hafi upp á að bjóða um helgina.Mótið hófst með fordómum stóðhesta en í dag hefur staðið yfir forkeppni í B-flokki gæðinga. Seinni partinn verður síðan forkeppni barna og unglinga.
„Undirbúningurinn hefur gengið nokkuð vel, það var að minnsta kosti allt tilbúið í morgun. Það hefur allt gengið vel nema veðrið núna seinni partinn en við höfum enga stjórn á því," segir Bjarki Þorvaldur Sigurbjörnsson, formaður Freyfaxa.
Til mótsins mæta knapar og hestar úr hestamannafélögum frá Eyjafirði í norðri og vestur fyrir Hornafjörð.
Búist er við um 800-1200 gestum á mótið og að þeim fari að fjölga verulega á morgun en formleg mótssetning og keppni í 100 metra skeiði og B-flokki gæðinga verður annað kvöld.
Hörðust verður keppnin um helgina en mótinu lýkur á A-flokki gæðinga um kaffileytið á sunnudag.
Austurfrétt leit við í forkeppninni í B-flokki í dag. Efstur inn í úrslit er Bergur Jónsson á Kötlu frá Ketilsstöðum með einkunnina 8,59.