Knattspyrna: Höttur og Einherji skildu jöfn á Fellavelli – Myndir

QM1T7123Höttur og Einherji mættust í sannkölluðum botnslag í C-riðli 1. deildar kvennar í gærkvöldi. Fyrir leikinn voru Hattarstúlkur án stiga í neðsta sæti riðilsins, en lið Einherja hafði náð í eitt stig og sat í næstneðsta sætinu. Skemmst er frá því að segja að bæði lið bættu við sig einu stigi og leikurinn endaði með 1-1 jafntefli.

Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað. Liðunum gekk illa að byggja upp sóknir sínar og fátt var um fína drætti. Hattarstúlkur voru ívið hættulegri aðilinn og komust nálægt því að skora þegar Rún Friðriksdóttir lék á nokkra leikmenn Einherja utan teigs og átti gott skot að marki, sem Eva Margrét Árnadóttir varði vel.

Í síðari hálfleik hresstust bæði lið örlítið og fóru að taka meiri áhættu í sóknarleiknum. Hattarliðið skoraði fljótlega mark, sem dæmt var af vegna rangstöðu.

Þá kom há aukaspyrna inn á teiginn og eftir mikinn barning kom leikmaður Hattar boltanum í netið. Hattarstúlkur fögnuðu því vel og lengi, enda leið töluverður tími þangað til að dómari leiksins veitti því athygli að aðstoðardómari hafði flaggað rangstöðu.

Lið Hattar uppskar löglegt mark skömmu seinna, á 58. mínútu. Þá tók Rebecca Hansen hornspyrnu frá vinstri sem rataði til Árdísar Aðalsteinsdóttur á fjærstönginni og hún stýrði knettinum í markið. 1-0 fyrir heimaliðinu.

Það tók lið Einherja þó ekki langan tíma að jafna leikinn, en það gerði Hulda Mýrdal Gunnarsdóttir á 70. mínútu með góðu skoti úr teignum.

Bæði lið hefðu getað stolið sigrinum undir lok leiks. Hattarstúlkur settu aukinn kraft í sóknina og reyndu hvað þær gátu að ná sigurmarkinu, en lið Einherja stóðst öll þeirra áhlaup og áttu nokkrar góðar skyndisóknir sem hefðu vel getað endað með marki.

Heilt yfir var jafntefli þó sanngjörn niðurstaða í þessum leik og bæði lið geta gengið sátt frá borði. Það verður þó að segjast að miðað við spilamennsku liðanna í þessum leik verður erfitt fyrir þau að kroppa mikið fleiri stig af hinum liðum riðilsins í sumar, en bæði lið Hattar og Einherja eru ung og óreynd.QM1T7054QM1T7061QM1T7072QM1T7078QM1T7102QM1T7116QM1T7133QM1T7146QM1T7155QM1T7164QM1T7177

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.