Knattspyrna: Fjarðabyggð á sigurbraut – Fyrsta jafntefli Hattar
Öll austfirsku karlaliðin voru í eldlínunni um helgina og náðu þau misgóðum úrslitum. Fjarðabyggð heldur áfram á sigurbraut í 1. deildinni, Huginn, Leiknir og Höttur náðu ekki að skila þremur stigum í hús í 2. deildinni og Einherjamenn unnu góðan sigur í hátíðarstemningu á Vopnaskaki.Fjarðabyggð tók á móti botnliði BÍ/Bolungarvíkur í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag og kom sér aftur á sigurbraut eftir tapið gegn toppliði Þróttar í síðustu umferð.
Fjarðabyggð voru manni fleiri frá 33. mínútu, en þá var leikmanni andstæðinganna vikið af velli eftir að hann hafði náð sér í tvö gul spjöld með skömmu millibili.
Fyrsta markið kom á lokamínútu fyrri hálfleiks, þegar Ingvar Ásbjörn Ingvarsson kom boltanum í netið eftir sendingu frá Sveini Fannari Sæmundssyni. 1-0 fyrir Fjarðabyggð í hálfleik og ljóst að róður gestanna að vestan yrði þungur í þeim seinni.
Sú varð raunin og Bjarni Mark Antonsson bætti við öðru marki Fjarðabyggðar á 54. mínútu. Brynjar Jónasson innsiglaði síðan sigur Fjarðabyggðar með marki á 83. mínútu og lokatölur urðu 3-0.
Í umfjöllun fótbolta.net um leikinn kemur fram að mikil stemning hafi verið meðal stuðningsmanna Fjarðabyggðar og að undir lok leiks hafi þeir byrjað að syngja „Fjarðabyggð í Pepsi,“ enda er Fjarðabyggðarliðið komið í hörku toppbaráttu í 1. deildinni og situr í þriðja sæti, tveimur stigum á eftir liði Víkings frá Ólafsvík, sem er í 2. sætinu.
Rýr uppskera í 2. deildinni – Góður sigur Einherja
Huginsmenn heimsóttu topplið ÍR í Breiðholtið á laugardaginn og þurftu að þola ósigur í þessu uppgjöri tveggja efstu liðanna. ÍR-ingar komust yfir með marki úr vítaspyrnu eftir um hálftíma leik en Fernando Calleja jafnaði leikinn á 40. mínútu.
ÍR komst svo aftur yfir á 61. mínútu og það reyndist seinasta mark leiksins, lokatölur 2-1. Blazo Lalevic, miðjumaður Hugins, fékk sitt annað gula spjald undir loks leiksins og því ljóst að hann er á leið í leikbann.
Leiknismenn fóru í Þorlákshöfn og spiluðu við heimamenn í Ægi á laugardag. Ægismenn byrjuðu leikinn betur og komust í 1-0 eftir fjórar mínútur. Almar Daði Jónsson jafnaði svo leikinn fyrir Leikni á 39. mínútu og fleiri mörk voru ekki skoruð á Þorlákshafnarvelli þann daginn.
Einherji sigraði Álftanes í 3. deildinni á laugardag með einu marki gegn engu. Leikurinn var liður í dagskrá Vopnafjarðardaga og fjöldi áhorfenda á vellinum. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði eina mark leiksins á 67. mínútu og tryggði Einherjamönnum stigin þrjú. Lið Einherja situr í fjórða sæti deildarinnar og eru einungis tveimur stigum frá liðunum í 2.-3. sæti.
Markalaust á Fellavelli
Höttur og Afturelding mættust á Fellavelli á laugardag, en Hattarmenn höfðu þó ætlað sér að spila leikinn á Vilhjálmsvelli. Dómari leiksins mat Vilhjálmsvöll hættulegan, vegna nýlagðra grasþakna í einu horni hans. Því var leikurinn færður norður fyrir fljót með skömmum fyrirvara.
Hattarmenn byrjuðu leikinn betur og stjórnuðu ferðinni í fyrri hálfleik. Þeir náðu þó ekki að skapa sér nein afgerandi færi. Steinar Aron Magnússon komst næst því að skora, en hann náði í tvígang að komast í þröng skotfæri hægra megin í vítateignum, en markvörður Aftureldingar réði við tilraunir hans í bæði skiptin.
Í síðari hálfleik jafnaðist leikurinn og Aftureldingarmenn náðu að koma sér inn í leikinn, en þeir voru með létta golu í bakið í seinni hálfleik. Það var þó lítið í gangi hjá liðunum, boltinn var meira og minna í loftinu allan hálfleikinn og gekk þannig endanna á milli.
Leikmenn Aftureldingar vildu fá vítaspyrnu þegar Runólfur Sveinn Sigmundsson stjakaði við sóknarmanni þeirra innan teigs. Sóknarmaðurinn fór þó mjög auðveldlega niður og það hefðir verið gríðarlega hart að dæma víti.
Fá færi litu dagsins ljós í síðari hálfleik, en Hattarmenn komust þó nærri því að skora eftir hornspyrnu þegar Mosfellingar hreinsuðu kraftlítinn skalla af marklínu. Hattarmenn virtust nokkuð sáttir með að ná í eitt stig og lögðu lítið í sóknina undir lok leiks og voru þeir sennilega ánægðari í leikslok en Mosfellingar, sem eru að reyna að setja pressu á topplið deildarinnar.
Þetta er fyrsta jafntefli Hattar í deildinni í sumar, en áður hafði liðið sigrað fjóra leiki og tapað fimm. Hattarmenn sitja í 6. sæti deildarinnar, með þrettán stig eftir tíu umferðir.
Besti leikmaður Hattar í leiknum var að mati Austurfréttar Kristófer Einarsson, sem steig ekki feilspor í hjarta varnarinnar. Elvar Þór Ægisson sýndi einnig góða takta fram á við og er sífellt að komast í betra leikform, sem veit á gott fyrir Hattarmenn.