Heiðraður fyrir starfið fyrir Freyfaxa: Byrjaði á að gera við girðingu
Félagar í hestamannafélaginu Freyfaxa afhentu í gær Guðmundi Þorleifssyni viðurkenningu fyrir störf hans innan félagsins í áratugi við lok Fjórðungsmóts hestamanna á Austurlandi sem haldið var á félagsvæðinu að Stekkhólma um helgina.Guðmundur var um tíma formaður félagsins, starfaði að uppbyggingu mannvirkja á svæðinu og mætir enn á mót og aðalfundi félagsins.
Í samtali við Austurfrétt í gær sagðist hann þakklátur fyrir viðurkenninguna og rifjaði upp á að afskipti hans af félaginu hefðu hafist á að gera við girðingu.
Það gerði hann líka fyrir mótið um helgina. „Já, ég lenti smávegis í því. Það þurfti að laga rafmagnsgirðingu."
Hann var mjög ánægður með mótið. „Það hefur tekist mjög vel á alla lund og fólkið sem ég hef talað við hefur látið mjög vel að því. Tímaáætlanir hafa staðist og allt verið flott."
Guðmundur fékk málverk frá félaginu af Mósu frá Hofteigi á Jökuldal en Mósa var fyrsti hesturinn sem Guðmundur eignaðist. Sigríður Ævarsdóttir málaði verkið.