Knattspyrna: Fjarðabyggðarliðin unnu bæði – Sjáðu mörk karlaliðsins
Bæði karla- og kvennalið Fjarðabyggðar unnu leiki sína í vikunni. Á mánudagskvöld fór kvennaliðið á Hornafjörð og sigraði Sindra og í gærkvöldi unnu karlarnir góðan útisigur á HK.Fjarðabyggð lét eitt mark duga til sigurs gegn Sindra. Klara Ívarsdóttir skoraði eina mark leiksins á 34. mínútu og með sigrinum nálgast Fjarðabyggð toppliðin í C-riðli 1. deildar kvenna. Þær hafa nú níu stig eftir fimm leiki og virðast ætla að blanda sér í baráttuna um 2.-3. sæti riðilsins. Þeirra bíður þó erfitt verkefni í næstu umferð, en þá tekur liðið á móti Völsungi, sem hefur unnið alla leiki sína til þessa.
Leikur HK og Fjarðabyggðar var í beinni útsendingu á SportTV og var hin besta skemmtun. Stefán Þór Eysteinsson kom Fjarðabyggð yfir með góðu skoti utan teigs á 20. mínútu. Boltinn barst þá út á Stefán eftir töluverðan barning í teignum og hann lyfti boltanum yfir allan pakkann og í slánna og inn. Skot Stefáns var ekki fast, en það var hnitmiðað.
Ekki var annað mark skorað fyrr en á 58. mínútu þegar Brynjar Jónasson notfærði sér ótrúlegan klaufagang í vörn HK og lagði boltann í markhornið. Elvar Ingi Vignisson kom síðan Fjarðabyggð þremur mörkum yfir á 71. mínútu með góðum skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá vinstri kantinum.
Þá virtist Fjarðabyggð nú ætla að sigla sigrinum auðveldlega í höfn. Liðið hafði haft töluverða yfirburði allan leikinn og sundurspilað vörn HK trekk í trekk. HK-menn neituðu þó að gefast upp og fengu vítaspyrnu á 82. mínútu.
Þá kom sending innfyrir og Hafþór Þrastarson elti sóknarmann HK. Eltingaleikurinn endaði með því að Hafþór braut á sóknarmanninum og uppskar sitt annað gula spjald og þar með fékk hann reisupassann.
Kile Kennedy gerði sér lítið fyrir og varði vítið, en lið HK hélt áfram að pressa og uppskar mark skömmu seinna. HK-menn áttu svo stangarskot undir lok leiks og fengu nokkur önnur góð færi til að minnka muninn enn frekar.
Það tókst þeim þó ekki og niðurstaðan varð góður sigur Fjarðabyggðar, sem situr enn í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Víkingi frá Ólafsvík, sem er í öðru sæti. Fjarðabyggð tekur einmitt á móti Ólafsvíkur-Víkingum í næstu umferð á Eskjuvelli.
Brynjar Þór Gestsson, þjálfari Fjarðabyggðar, talaði kjarnyrta íslensku í viðtölum við fjölmiðla eftir leik. Hann var ósáttur með vítið sem HK fékk og það að Hafþóri Þrastarsyni hefði verið vísað af velli. Brynjar sagðist jafnframt vonast til þess að dómari leiksins, Sigurður Óli Þórleifsson, myndi aldrei dæma hjá sér aftur.
Hér má sjá öll mörkin úr leiknum á vefsíðu SportTV.
Mynd: Stefán Þór skoraði fyrsta mark Fjarðabyggðar.