Knattspyrna: Fjarðabyggð sigraði toppslaginn – Leiknir vann Hött
Það var af nógu að taka í austfirskri knattspyrnu um helgina. Fjarðabyggð skaut sér upp í annað sæti 1. deildar með góðum heimasigri og Leiknismenn unnu grannaslaginn gegn Hetti. Þá gerði Huginn jafntefli við Sindra á Seyðisfirði og Einherjamenn unnu sterkan sigur gegn KFR og halda í við topplið 3. deildar. Þá fór kvennalið Hattar á Sauðarkrók og þurfti að sætta sig við ósigur gegn Tindastól.Leikur Fjarðabyggðar og Víkings Ó. var leikinn á Eskjuvelli á Eskifirði og var þetta fyrsti heimaleikur Fjarðabyggðar á grasi í sumar. Stuðningsmannasveit Fjarðabyggðar, Elítan, mætti á völlinn og hélt uppi góðri stemningu.
Markalaust var í leikhléi og lið Fjarðabyggðar varðist fimlega gegn sprækum gestunum. Á 74. mínútu komst Fjarðabyggð yfir með marki frá Elvari Inga Vignissyni. Þá mistókst varnarmanni gestanna að hreinsa, Ingvar Ásbjörn Ingvarsson náði boltanum og sendi á Elvar Inga sem kláraði færið vel.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og glæsilegur sigur Fjarðabyggðar í höfn. Gríðarlega sterkt hjá liðinu, sem er að stimpla sig af sífellt meiri krafti inn í toppbaráttu deildarinnar. Miðvörðurinn sterki, Hafþór Þrastarson, tók út leikbann í leiknum og í ljósi þess er sigurinn eflaust enn sætari fyrir Fjarðabyggð, en Hafþór hefur verið lykilmaður í liðinu í sumar.
Fjarðabyggð situr nú í öðru sæti deildarinnar með 24 stig eftir 11 leiki, þremur stigum á eftir toppliði Þróttar R., sem á leik til góða.
Huginsmenn töpuðu stigum á heimavelli
Huginn mætti Sindra á Seyðisfjarðarvelli á föstudagskvöld. Sindramenn komust yfir á 28. mínútu og héldu forystunni allt fram á 74. mínútu, þegar Miguel Gudiel Garcia jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu. Huginsmenn urðu manni fleiri skömmu seinna, en náðu ekki að nýta sér liðsmuninn á lokasprettinum.
Einherjamenn byrja heimaleikjatörn sína af miklum krafti, en liðið á núna þrjá heimaleiki í röð. Á laugardag unnu þeir KFR með þremur mörkum gegn einu. Heiðar Aðalbjörnsson, Gunnlaugur Bjarnar Baldursson og Todor Hristov skoruðu mörk Einherja í fyrri hálfleik og gestirnir náðu að klóra í bakkann þegar stundarfjórðungur lifði leiks.
Kvennalið Hattar fór á Sauðárkrók á laugardag og mætti Tindastól. Hattarliðið átti harma að hefna, en fyrr í sumar komust þær 2-0 yfir gegn Tindastól á Fellavelli, áður en leikur þeirra gjörsamlega hrundi og lið Tindastóls sigraði að lokum 2-3.
Hefndin gekk þó ekki vel á laugardag. Leikurinn byrjaði þó vel fyrir Hattarstúlkur, en Kristín Inga Vigfúsdóttir kom þeim yfir eftir þrjár mínútur. Tindastóll svaraði með marki þremur mínútur síðar, en Hattarstúlkur komust svo aftur yfir með marki frá Emmu Hewitt á níundu mínútu.
Tindastóll jafnaði svo leikinn rétt fyrir leikhlé og í síðari hálfleik sá Hattarliðið ekki til sólar. Heimastúlkur skoruðu þrjú mörk til viðbótar og sigruðu örugglega, 5-2.
Leiknismenn unnu grannaslaginn með minnsta mun
Leiknir og Höttur mættust í Fjarðabyggðarhöllinni á föstudagskvöld, en Leiknismenn verða enn sem komið er að sætta sig við að spila heimaleiki sína þar. Fjöldi áhorfenda lagði leið sína í höllina og var stúkan nokkuð þétt setin.
Leikurinn var frekar jafn í upphafi en fljótlega tóku Leiknismenn öll völd á vellinum og Hattarliðið átti í miklum erfiðleikum með að komast fram fyrir miðju á löngum köflum. Leiknismenn virtust alltaf vera nokkrum skrefum á undan leikmönnum Hattar og unnu flesta lausa bolta sem barist var um.
Fyrsta og eina mark leiksins kom á 35. mínútu, þegar Björgvin Stefán Pétursson renndi sér á skot Kristófers Páls Viðarssonar og stýrði því í netið. Töluverð rangstöðulykt var af markinu, en það stóð engu að síður.
Í síðari hálfleik héldu Leiknismenn uppteknum hætti og voru mun sterkari, án þess þó að skapa sér mikið af færum. Þeir fengu vítaspyrnu þegar um það bil 15 mínútur voru eftir af leiknum, en Sigurður Hrannar Björnsson gerði sér lítið fyrir og varði frá Arkadiusz Jan Grzelak.
Sigurður hélt Hattarliðinu inni í leiknum með þessari vörslu og undir lok leiks vöknuðu Héraðsmenn loksins og settu pressu á lið Leiknis. Spennan var töluverð á tímabili en Hattarmönnum tókst ekki að jafna og Leiknismenn lönduðu góðum og verðskulduðum sigri á grönnum sínum.
Með sigrinum fara Leiknismenn upp í 2. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði ÍR en einu stigi á undan Seyðfirðingum, sem verma þriðja sætið.