Knattspyrna: Höttur og Sindri skildu jöfn á Vilhjálmsvelli – Umfjöllun og myndir
Í gærkvöldi fór fram fyrsti leikur sumarsins á Vilhjálmsvelli, þegar Höttur tók á móti Sindra í C-riðli 1. deildar kvenna í knattspyrnu. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli, en Hattarliðið hafði töluverða yfirburði lengst af í leiknum og hefðu átt að landa sínum fyrsta sigri í sumar.Hattarliðið stjórnaði gangi leiksins í fyrri hálfleiks og voru mun sterkari. Þær náðu þó bara að skora eitt mark, en það gerði Kristín Inga Vigfúsdóttir eftir einungis átta mínútur.
Lið Hattar fékk fjölmörg færi til að bæta við mörkum, en ekki gekk það. Þess í stað náðu Sindrastúlkur að jafna skömmu fyrir leikhlé, en það gerði Regielly Oliveira Rodrigues þegar hún komst ein í gegnum vörn Hattar og lagði boltann snyrtilega í netið framhjá Jasmine Trundle í markinu.
Í síðari hálfleik héldu Hattarstúlkur áfram að vera sterkari aðilinn, en inn vildi boltinn ekki. Ársól Eva Birgisdóttir komst einna næst því að skora, en hún átti góðan skalla að marki eftir hornspyrnu sem markvörður Sindra varði virkilega vel. Rún Friðriksdóttir átti sömuleiðis magnaða marktilraun frá miðjuboganum, langskot hennar fór yfir markvörð Sindra en síðan naumlega framhjá markinu.
Besta færi Hattar til þess að klára leikinn kom í uppbótartíma, en þá léku Hattarstúlkur fimlega upp vinstri vænginn og boltinn barst til Emmu Hewett sem var á markteig með varnarmann í bakinu. Emma lagði boltann út í teiginn þar sem Árdís Ósk Aðalsteinsdóttir var alein og í algjöru dauðafæri, en skot hennar geigaði.
Skömmu síðar flautaði dómarinn til leiksloka og Hattarstúlkur misstu af gullnu tækifæri til þess að vinna sinn fyrsta sigur í sumar. Spilamennska liðsins í þessum leik var þó mjög góð og það er allt annað að sjá til þeirra en í upphafi móts. Emma Hewett styrkir liðið mikið fram á við, en þetta var einungis annar leikur hennar fyrir félagið. Fyrsti sigur liðsins hlýtur að fara að detta í hús ef þær halda svona áfram.