Gautaborgarleikar: „Frábært að fá að keppa á svona flottum velli“
Alls voru 10 keppendur frá UÍA á Gautaborgarleikunum, alþjóðlegu frjálsíþróttamóti fyrir unglinga sem haldið var fyrr í mánuðinum. Þar af voru níu keppendur frá Hetti og einn frá Leikni. Alls tóku um 4000 unglingar þátt í mótinu og í ár voru íslenskir keppendur rúmlega 100 talsins.Lovísa Hreinsdóttir, þjálfari hjá frjálsíþróttadeild Hattar, segir ferðina hafa heppnast vel. „Við vorum þarna í viku og keppnisdagarnir eru þrír. Keppnin gekk mjög vel og það var frábært að fá að keppa á svona flottum velli. Það hafa verið haldin stórmót á þessum velli, bæði HM og EM í frjálsum svo þetta eru bara bestu aðstæður sem hægt er að fá,“ sagði Lovísa í samtali við Austurfrétt.
Hitabylgja gekk yfir Evrópu á þeim tíma sem mótið fór fram og á keppnisdögunum var hitinn um 30 gráður og glampandi sól. „Aðstæðurnar voru töluvert frábrugðnar því sem við erum vön og mjög frábrugðnar aðstæðunum á Sumarhátíðinni síðustu helgi, þar sem hitinn fór ekki mikið yfir 5-10 gráðurnar.“
Lovísa segir keppendurna frá UÍA hafa staðið sig vel í keppninni og frídagarnir hafi sömuleiðis verið vel nýttir. „Við fórum í Liseberg skemmtigarðinn og síðan vorum við bara að versla og nutum þess að vera í sólinni.“
Einn helsti kostur Gautaborgarleikanna er að sögn Lovísu sá að mótið hentar öllum. „Við vorum með mjög breiðan hóp getulega og það geta allir farið og safnað í reynslubankann, bæði félagslega og íþróttalega.“
Keppendur frá UÍA hafa farið þrisvar sinnum á Gautaborgarleikana og að jafnaði hefur verið farið annað hvert ár. Stefnt er að því að fara aftur eftir tvö ár, enda reynslan af mótinu góð.
Mynd: Keppnishópurinn frá UÍA. /Aðalsteinn Þórhallsson