Knattspyrna: Leiknir og Huginn vinna enn og aftur
Austfirsku knattspyrnuliðin stóðu í ströngu um helgina. Karlalið Fjarðabyggðar náði ekki í stig gegn KA á Akureyri, en kvennaliðið vann hinsvegar góðan sigur gegn Tindastól og kom sér í góða stöðu. Huginn og Leiknir héldu áfram að hala inn stigum í 2. deildinni á meðan að lið Hattar tapaði gegn KV. Einherjamenn gerðu svo jafntefli í miklum markaleik á Vopnafirði.Fjarðabyggð er nú búið að tapa tveimur leikjum í röð í 1. deild karla, en liðið tapaði 2-1 gegn KA á Akureyri síðastliðinn fimmtudag, þar sem Ólafur Örn Eyjólfsson skoraði mark liðsins í uppbótartíma. Þrátt fyrir tapið situr Fjarðabyggð enn í þriðja sæti deildarinnar, en pakkinn fyrir neðan liðið er orðinn þéttur og Þróttur og Víkingur Ó. eru búin að ná smá forystu í efstu tveimur sætum deildarinnar.
Kvennalið Fjarðabyggðar vann góðan 3-0 sigur á Tindastól á Norðfjarðarvelli á föstudagskvöld. Freyja Viðarsdóttir, Oktavía Signý Hilmisdóttir og Alexandra Sæbjörg Hearn sáu um markaskorun liðsins, sem getur komið sér upp í annað sæti riðilsins með sigri gegn Hetti í grannaslag sem fer fram á Norðfjarðarvelli í kvöld.
Seyðfirðingar og Fáskrúðsfirðingar á siglingu
Lið Hugins heldur áfram á sigurbraut og vann Tindastól með fimm mörkum gegn engu á Seyðisfjarðarvelli á laugardag. Alvaro Montejo Calleja skoraði tvö mörk í upphafi leiks og í síðari hálfleik bættu Miguel Gudiel Garcia, Hinrik Atli Smárason og Rúnar Freyr Þórhallsson við einu marki hver. Marko Nicolic var vikið af velli eftir 62. mínútna leik en það virðist ekki hafa haft mikil áhrif á Seyðfirðinga, því þeir bættu við þremur mörkum eftir það og sitja enn í þriðja sæti deildarinnar, stigi á eftir Leikni Fáskrúðsfirði.
Leiknismenn halda nefnilega einnig áfram að sigra sína leiki og eru í öðru sætinu, stigi á eftir toppliði ÍR. Á laugardag mættu þeir Aftureldingu í Fjarðabyggðarhöllinni og unnu 2-1 sigur. Leiknismenn komust í 2-0 fyrir leikhlé. Fyrst skoraði leikmaður andstæðinganna sjálfsmark á fertugustu mínútu og svo bætti Björgvin Stefán Pétursson við öðru marki áður en hálfleiksflautið gall. Gestirnir svöruðu með marki um miðbik seinni hálfleiks, en náðu ekki að jafna leikinn og Leiknismenn gátu því notið franskra daga með bros á vör.
Hattarmenn fóru í vonbrigðaferð til Reykjavíkur og töpuðu 1-0 gegn KV. Jordan Farahani var vikið af velli á 70. mínútu og skömmu seinna skoruðu Vesturbæingar eina mark leiksins. Hattarliðið siglir nokkuð lygnan sjó í 2. deildinni og eru í 6. sæti með sextán stig eftir 13 leiki. Næsti leikur Hattar er á morgun, þegar Huginsmenn koma í heimsókn.
Einherji gerði 3-3 jafntefli við Víði á Vopnafirði á laugardag. Sigurður Donys, Gunnlaugur Bjarnar Baldursson og Bjartur Aðalbjörnsson skoruðu mörk Einherja, sem eru eflaust ósáttir með að hafa ekki klárað leikinn eftir að hafa komist 2-0 yfir í fyrri hálfleik. Einherjamenn eru í 4. sæti 3. deildar og eru fimm stigum á eftir Kára og Reyni Sandgerði. Einherjamenn eiga þó leik til góða.