Knattspyrna: Höttur náði í sinn fyrsta sigur á Norðfirði – Umfjöllun, myndir og viðtöl

QM1T5532Fjarðabyggð tók á móti Hetti í æsispennandi grannaslag í C-riðli 1. deildar kvenna á Norðfjarðarvelli í gærkvöldi. Fyrir leikinn var Fjarðabyggð í stöðu til þess að lyfta sér upp í annað sæti riðilsins, á meðan að Hattarliðið var við botninn, enn án sigurs í sumar. Hattarstúlkur gerðu sér þó lítið fyrir og unnu leikinn með tveimur mörkum gegn einu.

Leikurinn byrjaði með töluverðum látum. Hattarliðið fékk dauðafæri snemma leiks þegar Emma Hewett slapp ein í gegn, en Þórdís Mjöll Benediktsdóttir varði vel. Skömmu seinna átti Freyja Viðarsdóttir stórhættulegt skot langt utan af velli sem small í utanverðri stönginni, alveg upp við samskeytin.

Freyja var svo aftur á ferðinni nokkrum mínútum síðar þegar hún átti fast skot úr aukaspyrnu rétt utan teigs, en Jasmine Trundle, miðvallarleikmaðurinn sem lék í marki Hattar, náði að verja.

Fyrsta markið kom þó ekki fyrr en á 37. mínútu, þegar Kristín Inga Vigfúsdóttir skoraði með skoti úr teignum eftir snarpa sókn Hattar. Hattarstúlkur fögnuðu markinu vel en þeim var þó fljótlega kippt aftur niður á jörðina þegar Freyja Viðarsdóttir jafnaði leikinn fyrir Fjarðabyggð.

Þá kom há sending fram völlinn, sem miðverðir Hattar misstu yfir sig og Freyja tók sénsinn og lék á Jasmine í markinu áður en hún hljóp með boltann alla leið yfir línuna.

Allt leit út fyrir að liðin færu jöfn inn í hálfleikinn en svo varð ekki. Höttur fékk hornspyrnu og Valdís Vignisdóttir skallaði góða sendingu Rebeccu Hansen í netið og því fór lið Hattar með forystu inn í leikhléið.

Í síðari hálfleik reyndu Fjarðabyggð allt hvað þær gátu að jafna og í raun er það ótrúlegt að þeim hafi ekki tekist það. Jasmine í marki Hattar meiddist á úlnlið í upphitun og varð verri og verri eftir því sem leið á leikinn. Það var því ekki nóg með að Höttur væri með útileikmann í markinu, heldur voru þær með útileikmann sem gat ekki notað aðra höndina.

Jasmine byrjaði síðari hálfleikinn en það varð snemma ljóst að hún gæti ekki beitt hendinni neitt. Fjarðabyggð átti skot að marki sem var laust og hún hefði átt að grípa, en í stað þess að setja hendina í boltann reyndi hún að hreinsa með fótunum. Þá datt boltinn út í teiginn og þrír leikmenn Fjarðabyggðar voru fyrstir á svæðið, einn þeirra skaut á markið en Jasmine náði á ótrúlegan hátt að verja boltann í stöngina, þaðan sem leikmenn Hattar komu honum burt á síðustu stundu.

Þórdís Guðmundsdóttir skipti skömmu seinna við Jasmine í markinu, en Þórdís er ekki heldur markvörður. Það var ansi spaugilegt að
Fjarðabyggð gerði harða hríð að marki Hattar það sem eftir lifði leiks og fengu nóg af færum til að skora, en inn vildi boltinn alls ekki. Því varð niðurstaðan 1-2 sigur Hattar og gestirnir fögnuðu gríðarlega, á meðan að svekkelsið leyndi sér ekki hjá leikmönnum Fjarðabyggðar.

„Þetta var bara baráttusigur“
Óttar Guðlaugsson þjálfari Hattar var kampakátur að leik loknum. „Þetta var stressandi leikur. Þær áttu mörg færi sem þær hefðu getað klárað, en við hefðum líka átt að klára nokkur færi í viðbót. Þetta var bara baráttusigur og ég er ánægður með þetta,“ sagði Óttar.

Jasmine Trundle meiddist fyrir leik og þurfti að fara út af. „Hún var í upphitun að leika sér að kýla boltann eitthvað og fór illa með úlnliðinn á sér. Þetta varð verra með hverri mínútunni í leiknum og fljótlega í seinni hálfleik sá ég að þetta myndi ekki ganga lengur. Þórdís kom inn og stóð sig ágætlega, enda með markmannsblóð,“ sagði Óttar, en Þórdís er systir Atla Gunnars Guðmundssonar, markvarðar Hugins.

Fjarðabyggð þarf að vinna síðustu fjóra leikina
Nik Chamberlain, þjálfari Fjarðabyggðarliðsins var ósáttur og undrandi á því að tapa leiknum. „Þetta kom mér í opna skjöldu. Ég vissi að þetta yrði erfitt, þar sem okkur vantaði nokkra leikmenn og þær sem okkur vantaði skipta okkur greinilega meira máli en ég hafði gert ráð fyrir. Hetti vantaði líka leikmenn en okkar voru greinilega mikilvægari,“ sagði Nik, en Fjarðabyggð var einungis með þrjá varamenn á bekknum í dag.

Nik sagði fyrri hálfleik hafa verið jafnan og var ósáttur við að vera undir í hálfleik. „Það var fáránlegt að gefa þeim þessi mörk, við slökktum bara á okkur á röngum augnablikum og í seinni hálfleik var þetta bara einstefna, en fyrst við gátum ekki skorað á einhentan markvörð, sem er ekki einusinni markvörður, þá mátti alveg búast við því að þetta yrði langur dagur.“

Nik er bjartsýnn á að liðið nái markmiði sínu um að komast í úrslitakeppnina, þrátt fyrir tapið í gær. „Við þurftum að vinna fimm af síðustu sex leikjunum til að komast örugglega í úrslitakeppnina, svo núna þurfum við bara að vinna næstu fjóra,“ sagði Nik að lokum.
QM1T5229QM1T5263QM1T5300QM1T5314QM1T5322QM1T5343QM1T5367QM1T5375QM1T5395QM1T5444QM1T5488
QM1T5194

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar