Knattspyrna: Mögnuð endurkoma Fjarðabyggðar – Umfjöllun, myndir og viðtal

fotbolti kff fram 29072015 0004 webFjarðabyggð, Leiknir og Einherji léku í sínum deildum í gærkvöldi. Fjarðabyggð náði ótrúlegu jafntefli gegn Fram á Eskjuvelli í einum skemmtilegasta leik sem Austurfrétt hefur séð í sumar og Leiknismenn lentu í örlitlum vandræðum gegn neðsta liði annarar deildar en höfðu þó sigur að lokum.

Einherjamönnum var hinsvegar pakkað saman á Húsavík. Þar mættu þeir liði Völsungs, en fyrir leikinn voru Einherjamenn með einu stigi meira en Völsungar, í fjórða sæti deildarinnar. Leikurinn virðist þó hafa verið mjög ójafn, þar sem Völsungur sigraði með sex mörkum gegn einu marki Vopnfirðinga. Mark Einherja skoraði Snorri Eldjárn Hauksson.

Fáskrúðsfirðingar lentu í smá vandræðum með Dalvík/Reyni á Dalvík í gær. Þeir lentu undir eftir nokkurra mínútna leik og náðu ekki að svara fyrr en í upphafi síðari hálfleiks. Þar var Björgvin Stefán Pétursson á ferðinni í enn eitt skiptið í sumar.

Leiknismenn kláruðu svo leikinn þegar þeir skoruðu tvö mörk á tveimur mínútum þegar hálftími lifði leiks. Fyrst skoraði Björgvin Stefán aftur og síðan settu Dalvíkingar boltann í eigið net skömmu seinna. Dalvík/Reynir náði að skora eitt mark til viðbótar, en nær komust þeir ekki og Leiknismenn fóru heim með þrjú stig í farteskinu.

Lið Leiknis er nú í öðru sæti annarar deildar, með 33 stig, stigi á eftir toppliði ÍR og stigi á undan Huginn. Björgvin Stefán Pétursson heldur áfram að skora og er nú markahæstur í 2. deild, með 11 mörk í 14 leikjum.

Fjarðabyggð náði í stig úr vonlausri stöðu
Fjarðabyggð mætti Fram á Eskjuvelli í gærkvöldi. Framarar komust yfir eftir átta mínútna, en liðsmenn Fjarðabyggðar byrjuðu leikinn afleitlega og hver sókn Framara á fætur annarri skall á þeim.

Róður þeirra varð svo enn þyngri eftir hálftíma leik þegar miðvörðurinn Milos Ivankovic rauk út úr stöðu og skellti sér í tveggja fóta tæklingu á miðjunni, þegar ekkert var að gerast. Fyrir það fékk hann alveg eldrautt spjald og skellti sér í bað. Virkilega slæm ákvörðun hjá Milos.

Nokkrum mínútum síðar bætti Fram síðan við öðru marki og staða Fjarðabyggðar virtist alveg vonlaus. Þeir fengu þó aukaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Viktor Örn Guðmundsson þrumaði boltanum með sínum góða vinstri fæti, í varnarmann og þaðan í netið. 1-2 í leikhléi.

Vonir Fjarðabyggðar um endurkomu glæddust með þessu marki, en sú von virtist slökkt eftir einungis 20 sekúndna leik í síðari hálfleik. Þá skoruðu Framarar einstaklega snoturt mark og komu sér í tveggja marka forystu á ný.

Fjarðabyggðarliðið vann sig þó hægt og bítandi inn í leikinn og byrjaði síðan bara að stjórna honum, þrátt fyrir að vera manni færri. Framarar fengu þó sín tækifæri þegar heimamenn færðu sig framar á völlinn, en þeir fóru einstaklega illa með nokkur góð færi.

Á 78. mínútu átti Fjarðabyggð stórgóða sókn, sem endaði með marki. Fjarðabyggðarliðið lék lipurlega sín á milli vinstra megin á vellinum, færðu svo boltann yfir til hægri á bakvörðinn Svein Fannar Sæmundsson og hann tók ævintýralega rispu þvert yfir allan völlinn, þar sem hann fann Elvar Inga Vignisson við vítateigshornið. Elvar Ingi sendi boltann yfir á fjærstöng, þar sem Brynjar Jónasson reis eins og Fönix og skallaði boltann af gríðarlegum krafti í markhornið.

Fjarðabyggð átti leikinn á þessum tímapunkti og jöfnunarmarkið lá í loftinu. Það kom líka skömmu síðar, en þá skallaði Andri Þór Magnússon boltann aftur fyrir sig af miklu harðfylgi í teignum og knötturinn endaði í netinu. Stórskemmtilegt og sjaldséð mark frá Andra, sem hafði komið inn á sem varamaður í síðari hálfleik. Andri fékk reyndar skurð á höfuðið, sem þurfti að gera að, svo Fjarðabyggð voru tveimur mönnum færri í allmargar mínútur í restina.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og leikmenn Fjarðabyggðar fögnuðu stiginu, á meðan að gestirnir úr Reykjavík svekktu sig. Leikurinn var algjörlega frábær skemmtun og Fjarðabyggðarliðið sýndi mikinn vilja og dug með því að koma til baka úr erfiðri stöðu.

„Hundfúlt að menn hafi mætt í leikinn eins og þeir gerðu“
Brynjar Þór Gestsson þjálfari Fjarðabyggðar var ágætlega sáttur eftir leik. „Ég er bara mjög sáttur með að við höfum náð stigi út úr þessu, einum færri í sextíu mínútur og eftir að hafa lent 3-1 undir. Við komum sterkir til baka í dag og þetta er bara boost fyrir okkur.“

Þjálfarinn var ósáttur með fyrri hálfleikinn hjá sínu liði. „Mér finnst bara hundfúlt að menn hafi mætt í leikinn eins og þeir gerðu. Ég veit ekki hvað við ætluðum að fá út úr þessu hérna í byrjun. Við vorum ekki að hreyfa okkur og ekki að gera nokkurn skapaðan hlut og Framararnir litu mjög vel út á meðan. Það kviknaði á okkur í seinni hálfleik, þó að við höfum reyndar fengið á okkur mark eftir 20 sekúndur, sem var ekki planið. Við erum náttúrlega að gefa tvö mörk hérna í dag.“

Rauða spjaldið var rétt ákvörðun að mati Brynjars. „Ég held það bara. Það var auðvitað gert rosalega mikið úr því, en hann verður að passa sig á þessu drengurinn. Hann hefur ekkert að gera í þessa tæklingu hérna úti á miðjum vellinum, þetta var fáránlegt. Hann er hafsent og þetta var óþarfi. Hann hefði mátt vera skynsamari og maður ætlast til þess, af leikmanni sem er, jahh - ekki að byrja í fótbolta - við getum orðað það þannig.“

Annars fannst Brynjari dómgæslan frekar skrítin. „Dómgæslan var – ekki slök, en hún var ævintýraleg stundum. Það sem ég er að meina er það að það var eiginlega engin lína og það féll lítið með okkur í dag. Þegar maður fær dæmdar á sig aukaspyrnur fyrir ákveðin atriði þá vill maður líka fá þær með sér. En skítt með það.“
fotbolti kff fram 29072015 0006 webfotbolti kff fram 29072015 0007 webfotbolti kff fram 29072015 0013 webfotbolti kff fram 29072015 0015 webfotbolti kff fram 29072015 0022 webfotbolti kff fram 29072015 0025 webfotbolti kff fram 29072015 0032 webfotbolti kff fram 29072015 0035 webfotbolti kff fram 29072015 0036 webfotbolti kff fram 29072015 0041 webfotbolti kff fram 29072015 0051 webfotbolti kff fram 29072015 0054 webfotbolti kff fram 29072015 0057 webfotbolti kff fram 29072015 0059 web

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar