Knattspyrna: Leiknir og Huginn tylltu sér í toppsætin - Myndir

fotbolti leiknir kf 06082015 0039 webLeiknir og Huginn áttu leiki í 2. deild karla í gærkvöldi. Leiknismenn lentu í vandræðum með KF í Fjarðabyggðarhöllinni en náðu þó að sigra og á sama tíma unnu Seyðfirðingar þægilegan útisigur gegn botnliði deildarinnar, Dalvík/Reyni.

Einherjastúlkur fóru á Sauðárkrók á miðvikudagskvöld og lutu í gras gegn Tindastól, 2-1. Einherji komst yfir með marki frá Karítas Önju Magnúsdóttur á 20. mínútu leiksins og voru yfir í hálfleik. Í upphafi síðari hálfleik skoruðu Tindastólsstúlkur tvö mörk með skömmu millibili og lið Einherja náði ekki að jafna leikinn á ný. Einherjaliðið er því enn án sigurs á botni C-riðils 1. deildar.

Botnlið Dalvíkur/Reynis reyndist ekki mikil fyrirstaða fyrir lið Hugins, er liðin mættust á Dalvíkurvelli í gærkvöldi og unnu Huginsmenn 4-1 sigur. Ingólfur Árnason kom Huginn yfir með marki beint úr aukaspyrnu á 19. mínútu leiksins og fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik.

Annað markið kom síðan ekki fyrr en á 69. mínútu, þegar Magnús Már Einarsson, lánsmaður frá Leikni Reykjavík og ritstjóri fótbolta.net, skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í sínum fyrsta leik. Skömmu síðar skoruðu Dalvíkingar svo sjálfsmark og staðan orðin 0-3 fyrir Huginn.

Dalvíkingar minnkuðu muninn á 81. mínútu en Huginsmenn bættu við fjórða marki sínu í uppbótartíma, þegar Pétur Óskarsson kom knettinum í netið.

Þægilegur sigur hjá Seyðfirðingum, sem voru Spánverjalausir í þessum leik, vegna leikbanns og meiðsla hjá Fernando Calleja og Miguel Gudiel, auk þess sem Alvaro Montejo er farinn aftur heim og leikur ekki meira með liðinu í sumar. Hann spilaði bara þrjá leiki með liðinu en náði að skora í þeim fjögur mörk og lagði einnig nokkur upp.

Fáskrúðsfirðingar komnir á toppinn (í bili)
Leiknismenn lentu í töluverðu basli með Knattspyrnufélag Fjallabyggðar er liðin mættust í Fjarðabyggðarhöllinni, en höfðu þó 2-1 sigur að lokum og smelltu sér á topp deildarinnar.

Leiknir voru sterkari í fyrri hálfleik en fengu samt lítið af góðum færum. Vignir Daníel átti tvö ágætis skot fyrir utan teig, Haraldur Þór átti eitt skot rétt framhjá og Björgvin Stefán átti skot í hliðarnetið úr afar þröngu færi.

Fyrsta mark leiksins kom á 38. mínútu og það var af dýrari gerðinni. Þá fengu Leiknismenn aukaspyrnu á vítateigshorninu þegar ýtt var á Björgvin Stefán í skallabaráttu og Fernando Garcia setti boltann einfaldlega í vinkilinn fjær. Gríðarlega fallegt mark.

Leiknismenn fóru með 1-0 forystu inn í leikhléið og gestirnir að norðan höfðu ekki sýnt mikið í fyrri hálfleiknum. Það breyttist þó í þeim síðari.
Gestirnir komu miklu kraftmeiri og ákveðnari til leiks og hefðu sennilega átt að fá vítaspyrnu á 49. mínútu, þegar Bergsteinn markvörður Leiknis kýldi sóknarmann í höfuðið, eftir að sóknarmaðurinn hafði skallað boltann. Þrátt fyrir að skallinn sóknarmannsins hafi farið framhjá markinu var Bergsteinn hvergi nærri því að ná til boltans og um klárt brot að ræða.

KF héldu áfram að vera sterkari aðilinn eftir þetta, en þó áttu Leiknismenn ágæta spretti inn á milli. Á 56. mínútu prjónaði Vignir Daníel sig glæsilega í gegnum vörn KF, en skot hans fór í stöngina.

Á 66. mínútu fengu norðanmenn algjört dauðafæri. Góð fyrirgjöf kom endaði á markteig þar sem framherji KF var einn og óvaldaður en tókst að skófla boltanum framhjá markinu, þegar það hefði sennilega verið auðveldara að hitta á rammann.

Jöfnunarmarkið kom þó loks á 70. mínútu og var það afar verðskuldað. Þá spiluðu norðanmenn sig í gegnum vörn Leiknis og erlendur framherji þeirra skoraði með föstu skoti hægra megin í teignum. 1-1.

Leiknismenn hresstust örlítið við þetta eftir annars afleitan síðari hálfleik og Kristófer Páll átti frábært skot á 83. mínútu sem var vel varið í horn. Upp úr hornspyrnunni kom síðan jöfnunarmarkið, sem var ansi skrautlegt.

Marinó Óli Sigurbjörnsson vinstri bakvörður Leiknis tók þá hlaup á nærstöng en féll í jörðina. Hann lá síðan þar og baðaði út öllum öngum og vildi fá víti. Ekki fékk hann vítið, en boltinn hinsvegar barst til hans þar sem hann lá á bakinu og hann sparkaði honum í netið. Ótrúlega fyndið mark.

Leiknismenn voru skynsamir eftir þetta og héldu boltanum vel innan liðsins. Sóknaraðgerðir KF urðu örvæntingarfullar og þeir fóru að þrýsta sífellt fleiri mönnum fram, sem varð til þess að Leiknismenn gátu sótt hratt. Garðar Logi fékk gott færi í uppbótartíma, þegar hann komst einn í gegn, en skot hans var varið.

Fáskrúðsfirðingar voru fegnir þegar lokaflautið gall, en gestirnir gjörsamlega niðurbrotnir. Þeir hefðu átt stig skilið fyrir frammistöðu sína í síðari hálfleik.

Leiknismönnum er þó væntanlega alveg sama – því þeir eru komnir á toppinn, fram á laugardag hið minnsta, en þá spilar ÍR við Hött á Egilsstöðum. Bæði Fáskrúðsfirðingar og Seyðfirðingar hafa ríka ástæðu til að styðja Héraðsmenn til sigurs í þeim leik.

Myndir: Gunnar Gunnarsson
fotbolti leiknir kf 06082015 0007 webfotbolti leiknir kf 06082015 0013 webfotbolti leiknir kf 06082015 0019 webfotbolti leiknir kf 06082015 0021 webfotbolti leiknir kf 06082015 0026 webfotbolti leiknir kf 06082015 0033 webfotbolti leiknir kf 06082015 0035 webfotbolti leiknir kf 06082015 0003 webfotbolti leiknir kf 06082015 0044 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar