Knattspyrna: Höttur skellti ÍR óvænt – Fjarðabyggð gerði jafntefli við Þór – Myndir

kff thor2Það var nóg að gerast í austfirskri knattspyrnu um helgina. Kvennalið Fjarðabyggðar steig skref í átt að úrslitakeppninni í C-riðli 1. deildar með góðum útisigri gegn Tindastól, Hattarmenn gerðu nágrönnum sínum í Leikni og Huginn stóran greiða þegar þeir unnu óvæntan sigur gegn ÍR á heimavelli og Fjarðabyggð gerði jafntefli gegn Þór á Eskjuvelli, í leik sem bæði lið hefðu helst þurft að vinna til að nálgast topplið 1. deildar karla.

Einherjakonur náðu í sitt fjórða stig í sumar þegar þær fóru á Höfn á sunnudag. Leiknum gegn heimastúlkum í Sindra lauk með markalausu jafntefli og gerir það svo gott sem út um möguleika Sindra um að enda í einum af þremur efstu sætum riðilsins.

Hattarstúlkur töpuðu 0-4 á heimavelli gegn Völsungi á föstudagskvöld og má það teljast ágætlega sloppið, en Völsungur er langsterkasta lið riðilsins og hefur farið illa með flesta andstæðinga sína í sumar.

Karlalið Einherja tapaði á heimavelli gegn Reyni Sandgerði. Einherjamenn komust yfir á 21. mínútu með marki frá Todor Hristov, en gestirnir náðu að jafna fyrir leikhlé. Bjartur Aðalbjörnsson kom Einherja aftur yfir í upphafi síðari hálfleiks en nokkrum mínútum síðar jöfnuðu gestirnir á ný. Reynismenn skoruðu svo sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok og tóku öll stigin með sér suður.

Einherjamenn hafa verið í basli undanfarið og einungis náð í eitt stig í seinustu fjórum leikjum. Þetta hökt þeirra hefur gert það að verkum að toppbaráttan er orðin ansi fjarlæg, en liðið er í fimmta sæti deildarinnar, töluvert á eftir liðunum sem berjast um annað sætið.

Fjarðabyggð gerði góða ferð á Sauðárkrók í gær og sigraði Tindastól, sem sat í öðru sæti C-riðils 1. deildar fyrir leikinn. Sigurdís Egilsdóttir, sem kom frá Aftureldingu í félagaskiptaglugganum, skoraði bæði mörk liðsins, á 11. mínútu og 50. mínútu. Tindastólskonur náðu að klóra í bakkann í uppbótartíma en komust ekki lengra og Fjarðabyggð fór heim með gríðarlega mikilvæg þrjú stig, sem eru eflaust sérstaklega sæt þar sem liðið var afskaplega þunnskipað – einungis einn varamaður var skráður á skýrslu.

Fjarðabyggðarliðið hefur nú örlög sín í eigin höndum og þurfa bara að klára alla sína leiki til að tryggja sér annað sæti riðilsins. Þær eru tveimur stigum á eftir Tindastól eftir leiki helgarinnar, en eiga leik til góða. Næsti leikur liðsins er gegn Hömrunum á Akureyri á miðvikudagskvöld.

Glæsimark Nik dugði Fjarðabyggð ekki til sigurs
Fjarðabyggð og Þór mættust á Eskjuvelli á föstudagskvöld, en fyrir leikinn voru liðin í þriðja og fjórða sæti 1. deildar, en þó töluvert frá Þrótti og Víkingi Ó., sem eru í tveimur efstu sætunum. Bæði lið vildu því ólm vinna sigur í þessum leik. Skemmst er frá því að segja að hvorugt liðið fékk ósk sína uppfyllta og liðin sættust á 2-2 jafntefli, eftir stórskemmtilegan síðari hálfleik.

Fyrri hálfleikur var alveg hundleiðinlegur áhorfs. Það var hart barist á miðjum vellinum og nóg af spjöldum fóru á loft, en það var fátt um fína drætti. Það verður bara að segjast að Eskjuvöllur hentar ekki vel til þess að spila einhvern sambabolta – eins og Brynjar Gestsson þjálfari Fjarðabyggðar minntist á í viðtali við fótbolta.net að leik loknum. Þar sagði hann Eskjuvöll beinlínis hamla leikstíl liðsins, sem felst í því að halda boltanum og spila honum með jörðinni.

Í síðari hálfleik hófst þó fjörið. Brynjar Jónasson kom Fjarðabyggð yfir með frábærum skalla eftir hornspyrnu á 54. mínútu. Leikmenn Fjarðabyggðar mynduðu þá þéttan pakka á marklínunni, en boltinn fór yfir allan pakkann og þar mætti Brynjar og stangaði hann af krafti í netið.

Þórsarar svöruðu á 75. mínútu þegar Kristinn Þór Björnsson skoraði gott mark af löngu færi. Hann tók boltann á kassann og smellti honum í fallegum boga yfir varnarlausan Kile Kennedy í marki Fjarðabyggðar.

Fjarðabyggð geystist strax í sókn og náði forystunni á nýjan leik tveimur mínútum síðar. Þá barst boltinn til Nik Chamberlain hægra megin í teignum hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur þrumaði boltanum með hægri fæti upp í vinkilinn. Algjörlega geggjað mark.

Forysta Fjarðabyggðar varði þó ekki lengi, því Þórsarar tóku miðju og 15 sekúndum síðar voru þeir búnir að fá víti. Þá braut Jóhann Ragnar á sóknarmanni Þórs þegar hann var kominn í upplagt marktækifæri og hlaut rautt spjald að launum.

Jóhann Helgi Hannesson skoraði úr vítaspyrnunni og jafnaði leikinn og ljóst að lokamínúturnar yrðu spennandi, enda vildu bæði lið ná sigri. Fjarðabyggð, manni færri, komst nær því að skora á síðustu tíu mínútunum, en þeir náðu því þó ekki frekar en Þórsarar og niðurstaðan varð sanngjarnt 2-2 jafntefli tveggja góðra liða.

Hákon Þór Sófusson var mjög sprækur á vinstri kantinum í liði Fjarðabyggðar og Carl Oscar Anderson, sem kom frá Svíþjóð í félagaskiptaglugganum, leit sömuleiðis vel út á miðjunni.

Öll mörkin úr leiknum má sjá á vef RÚV og hefst markasyrpan úr leiknum eftir 6:20 mínútur.

Hattarmenn gerðu nágrönnum sínum greiða í toppbaráttunni
Höttur og ÍR mættust á Vilhjálmsvelli á laugardag og þar höfðu Hattarmenn betur, 2-0. Þessi úrslit komu töluvert á óvart, enda hafa ÍR verið á miklu flugi í sumar og leitt deildina lengst af, á meðan að Hattarliðið hefur átt erfitt með að skora mörk. Þegar liðin mættust í Breiðholti fyrr í sumar hafði ÍR betur, 4-0.

Leikurinn byrjaði rólega, en ÍR-ingar áttu fyrsta dauðafærið. Þá gáfu Hattarmenn frá sér boltann í öftustu víglínu og framherji ÍR slapp einn í gegn. Sigurður Hrannar Björnsson markvörður kom hinsvegar út úr markinu og át framherja ÍR. Gríðarlega vel gert.

Hattarmenn stjórnuðu gangi leiksins og í raun komu einu færi ÍR þegar Höttur missti boltann aftarlega á vellinum. Hattarmenn áttu nokkrar góðar fyrirgjafir en náðu ekki að reka endahnútinn á sóknir sínar. Það munaði alltaf hársbreidd.

ÍR-ingar skoruðu mark í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu, en heilt yfir var fyrri hálfleikur frekar dapur hjá báðum liðum og lítið um alvöru færi.

Á 50. mínútu kom loks mark í leikinn, þegar Jovan Kujundzic skallaði boltann í net ÍR-inga af markteig, eftir frábæra sendingu frá Óttari Stein Magnússyni af vinstri kantinum (!).

ÍR-ingar höndluðu það mjög illa að lenda undir og eyddu allri sinni orku í að rífast í dómaranum eða andstæðingunum. Það kom því ekkert stórkostlega á óvart þegar Hattarmenn bættu við öðru marki á 63. mínútu, en það gerði Högni Helgason með skoti úr teignum eftir undirbúning Óttars Guðlaugssonar og Friðriks Inga Þráinssonar. Verðskulduð forysta Hattar, sem spiluðu vel í þessum leik.

ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu að jafna, en vörn Hattar var þétt og í raun náðu gestirnir aldrei að skapa sér nein alvöru færi. Hattarmenn fengu hinsvegar færi til að bæta við marki þegar Georgi Stefanov, Búlgarinn sem kom til Hattar í félagaskiptaglugganum, vann boltann af markverði ÍR úti á vinstri kantinum og skrúfaði hann í átt að opnu markinu. Boltinn var lengi á leiðinni og mátti heyra saumnál detta á Vilhjálmsvelli þegar hann skrúfaðist hægt og rólega í stöngina og út, áður en varnarmenn ÍR bægðu hættunni frá.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og Hattarmenn sigldu sannfærandi sigri í hús. Með sigrinum gerðu þeir nágrönnum sínum í Leikni og Huginn stóran greiða, en með sigri hefði ÍR skotist upp fyrir þau bæði í töflunni. Þess í stað eru Austfjarðaliðin tvö komin í bílstjórasætið í annari deildinni og við hér hjá Austurfrétt fögnum því.

Hattarliðið leit vel út í þessum leik og vörnin var sérstaklega traust. Miðverðirnir Óttar Steinn og Jordan leystu ásamt bakvörðunum Ísleifi og Jovan listilega vel úr öllum tilraunum ÍR til að skapa einhverja hættu. Þá var Garðar Már Grétarsson sprækur á hægri kantinum og það er í raun ótrúlegt að einhver af fyrirgjöfum hans hafi ekki endað með marki.
kff thor3kff thor4kff thor5kff thor6kff thor7kff thor8kff thor9kff thor16kff thor10kff thor11kff thor12kff thor13kff thor14kff thor15
kff thor1fotbolti hottur ir1fotbolti hottur ir2fotbolti hottur ir3fotbolti hottur ir4fotbolti hottur ir6fotbolti hottur ir7fotbolti hottur ir8fotbolti hottur ir9fotbolti hottur ir10fotbolti hottur ir11fotbolti hottur ir5

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.