Elstur til að verða landvættur: Snýst um að vera með og hafa gaman af

urridavatnssund 2015 0107 hjalmar joels webEgilsstaðabúinn Hjálmar Jóelsson varð um helgina elstur þeirra sem lokið hafa svokallaðri landvættaþraut, sem felst í að ljúka fjórum þolíþróttakeppnum á sama árinu. Hann segist hafa gaman af félagsskapnum í kringum keppnirnar.

Hjálmar, sem er 74 ára gamall, lauk á laugardag Jökulsárhlaupinu sem er síðasta greininni í þrautinni. Jökulsárhlaupið er 32,7 km hlaup frá Dettifossi til Ásbyrgis en Hjálmar var tæpa fjóra tíma á leiðinni.

Til að verða landvættur þarf að ljúka fjórum íþróttakeppnum, hverri í sínum landshlutanum, á innan við tólf mánuðum. Á Ísafirði er gengin Fossavatnsgangan, 50 km löng, á milli Hafnarfjarðar og Grindavíkur er hjóluð Bláa lóns þrautin, 60 km löng og á Austurland er synt í Urriðavatni, um 2,5 km leið.

„Ég er enn með bölvaða strengi," sagði Hjálmar þegar Austurfrétt náði tali af honum eftir hádegi í dag.

Hann segist ekki beint hafa sett sér það markmið að klára landvættaþrautina heldur hafi eitt leitt af öðru. Hann hafi byrjað á Fossavatnsgöngunni, sem hann hafi gengið einu tíu sinnum og síðan hafi röðin verið komin að hjólreiðunum.

„Ég fékk hjól í afmælisgjöf þegar ég varð sjötugur og síðan hef ég sett mér það markmið að hjóla að minnsta kosti 10 þúsund kílómetra áður en ég yrði 75 ára. Ég er því alltaf með það með og í góðri þjálfun svo ég skellti mér í Bláa lóns þrautina. Ég var samt ekki staðráðinn í að klára landvættaþrautina," segir hann.

Fann þetta yrðu engin vandræði

Síðustu helgina í júlí var svo komið að Urriðavatnssundinu á heimavelli. „Ég fór einu sinni út í vatnið í blautbúningi, fann að ég flaut vel og gæti hvílt mig á bakinu þannig þetta yrðu engin vandræði.

Hjálmar segist synda reglulega en það gerir hann í sundlaugum. Það var því nokkur reynsla fyrir hann að fara í Urriðavatnssundið en vatnið var aðeins um 11 gráðu heitt þegar það var synt. Hjálmar hafði hvorki synt í svo köldu fyrr né farið í blautbúning.

„Pétur (Heimisson, læknir og skipuleggjandi sundsins) bauðst til að synda með mér daginn fyrir. Ég fékk fyrst blautbúning hjá tengdasyni mínum en hann var svo stór að Pétur hélt að ég myndi drukkna í honum.

Þá fékk ég lánaðan búning hjá Dandý (Antonsdóttir Michelsen, þríþrautarkonu sem eftir því sem Austurfrétt kemst næst er hinn Austfirðingurinn sem orðið hefur landvættur) en hann var svo lítill að þegar Pétur hafði hjálpað mér í hann átti ég erfitt um andardrátt. Við syntum nokkur hundruð metra en ég varð feginn að komast í land því ég varð eiginlega að synda á hlið til að ná andanum.

Það vildi hins vegar svo vel til að Pétur þekkti mann í Reykjavík sem náði að senda mér búning með flugi. Hann var kominn þremur tímum eftir að við pöntuðum hann og smellpassaði."

Sundið gekk nokkuð vel. „Búningurinn einangraði mig svo vel að kuldinn truflaði mig ekki. Ég synti bara á mínum hraða, ég var ekki í keppni. Markmiðið var bara að klára," segir Hjálmar.

Vegna kuldans var sundið stytt niður í 2,1 km. Hjálmar var nr. 28 í mark af 34 í karlaflokki á tímanum 1:02;46 klst. en fyrsti maður synti á 34;21 mínútu.

„Mér fannst mjög gaman að taka þátt í sundinu. Það var vel að því staðið, kar handa okkur þegar við komum upp úr, veitingar og góð gæsla. Þeir sem ég talaði við voru mjög ánægðir með það."

Og eins og Hjálmar segir sjálfur: „Þá var bara ein þraut eftir."

Metnaðurinn að hreyfa sig á hverjum degi

Sem var hlaupið í Jökulsárgljúfrum. Hjálmar lýsir henni sem þeirri erfiðustu. „Ég sleit hásin fyrir 20 árum og hef ekki komist í að hlaupa af gagni. Eftir sundið fór ég nokkrum sinnum upp í skóg og þegar ég fann að fóturinn hélt ákvað ég að fara.

Fyrsti hluti hlaupsins var erfiður, stígarnir blautir og varasamir en ég var á góðum tíma og huggaði mig alltaf við að ég gæti labbað síðustu kílómetrana."

Hann segist ekkert vera farinn að huga að frekari afrekum. „Ég hef engan metnað til að gera neitt sérstakt, fyrst og fremst hef ég metnað fyrir því að hreyfa mig á hverjum degi, helst að lágmarki í klukkutíma. Á veturna syndi ég eða fer á gönguskíði en hjóla eða syndi á sumrin.

Kannski held ég áfram. Ég á góða kunningja í kringum skíðin og reikna með að halda þeim áfram.

Ég segi stundum að ég hafi ekki annað að gera en sumir hafa þessar dellur og aðrir hinar. Þetta snýst ekki um tímann heldur að vera með og hafa gaman af."

Hjálmar á leið í mark í Urriðavatnssundinu. Mynd: GG

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.