Knattspyrna: Fjarðabyggð vann góðan útisigur – Ljóst hvaða lið mætast í úrslitum Launaflsbikarsins

QM1T5229Fjarðabyggð vann mikilvægan sigur í toppbaráttu C-riðils 1. deildar kvenna í gærkvöldi. Þá tryggðu Spyrnir og Leiknir B sér sæti í úrslitum Launaflsbikarsins með sigrum á Boltafélagi Norðfjarðar og Ungmennafélagi Borgarfjarðar.

Fjarðabyggð gerði góða ferð á Akureyri og sigraði Hamrana með tveimur mörkum gegn engu. Freyja Viðarsdóttir skoraði bæði mörk Fjarðabyggðar í fyrri hálfleik, en lið Fjarðabyggðar átti harma að hefna gegn Hömrunum eftir að hafa tapað fyrri leiknum gegn þeim á heimavelli.

Nú eru tveir leikir eftir í riðlinum hjá Fjarðabyggð og liðinu duga fjögur stig til að gulltryggja annað sætið.

Leiknir B og Spyrnir mætast í úrslitum Launaflsbikarsins
Spyrnismenn tóku á móti Boltafélagi Norðfjarðar á Fellavelli í gærkvöldi og unnu nokkuð öruggan 6-2 sigur. Á sama tíma mættust Leiknir B og UMFB á Búðagrund og þar höfðu heimamenn í Leikni 3-1 sigur, í spennandi leik.

Borgfirðingar komust yfir í síðari hálfleik, en Leiknismenn svöruðu fljótlega með tveimur mörkum. Undir lok leiks lögðu síðan gestirnir allt kapp á að jafna leikinn og þá skoruðu heimamenn þriðja markið.

Það verða því Spyrnir og Leiknir B sem mætast í úrslitaleik Launaflsbikarsins þetta árið, en áætlað er að spila úrslitaleikinn næstkomandi sunnudag. Austurfrétt verður eflaust á staðnum og fylgist með gangi mála.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar