Tour de Ormurinn á morgun: Skapa sér sérstöðu með almennri gleði og kumpánleika
Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn er orðin að árlegum viðburði á Héraði og á morgun er keppnin haldin í fjórða sinn. Austurfrétt hitti á Hildi Bergsdóttur, framkvæmdastýru UÍA og forvitnaðist um keppnina, sem UÍA stendur að ásamt Fljótsdalshéraði og Austurför.„Við erum með rúmlega 20 skráða núna og erum með opið fyrir skráningar til klukkan fimm í dag. Við vitum af fenginni reynslu að fólk er að líta á veðurspánna, það er að verið að rýna í kortin og oft hrúgast það inn á síðustu metrunum og við vonum að það geri það einnig núna,“ segir Hildur, en ræst verður af stað frá Þjóðvegi 1 neðan við Söluskálann á Egilsstöðum kl. 9:00.
Hildur vill sjá fleiri heimamenn skrá sig til leiks. „Við erum með töluvert af fólki sem er að koma að, bæði að sunnan og norðan og það er bara frábært að fá góða gesti. Ég vildi þó gjarnan vilja sjá fleiri heimamenn líka með. Til dæmis eru engin lið skráð í liðakeppnina eins og staðan er núna og hún er kannski hugsuð sem svona þægilegra form fyrir fólk sem er kannski ekkert í brjáluðu formi. Þar eru þrír sem hjóla styttri hringinn saman þar og það á að vera nokkuð þægilegt fyrir fólk sem finnst gaman að hreyfa sig og er í sæmilegu formi.
Þannig að ég skora á Héraðsbúa og Austfirðinga alla að skella sér að minnsta kosti í þá keppni. Svo langar mig líka að fá fleiri konur í keppnina, eins og staðan er núna eru færri konur skráðar en karlar og einungis ein kona skráð í lengri hringinn. Það eru svakalega flott verðlaun í boði, þetta er ægilega fallegur hringur og konur geta þetta, rétt eins og karlar.“
Vantar enn fólk í brautarvörslu
Vegna síðbúins heyskaps hjá bændum geta margir þeirra ekki staðið vaktina í brautarvörslu keppninnar. „Við höfum mikið treyst á bændur varðandi brautarvörslu undanfarin ár og átt í góðu samstarfi við kvenfélagskonur í Skriðdal sem hafa staðið vaktina fyrir okkur líka. Nú eru bændur hinsvegar uppteknir í öðru og við óskum þeim alls hins besta og því og berum virðingu fyrir því.
En það er staðreynd að við erum ekki fullmönnuð varðandi brautarvörslu en við leggjum mikinn metnað í brautarvörsluna hinsvegar og höfum fengið mikið hrós fyrir hana frá keppendum sem hafa hjólað mjög víða. Sumir hafa sagt að brautarvarslan hjá okkur sé með því besta sem þeir hafa nokkurtímann upplifað,“ segir Hildur.
Skapa sér sérstöðu með almennri gleði og kumpánleika
Hildur segir að reynt sé að skapa keppninni sérstöðu með ýmsum hætti. „Við höfum ekkert gríðarlegt fjármagn á bakvið keppnina, við erum ekki að gefa hjól eða GoPro-myndavélar í verðlaun en við reynum að skapa okkur sérstöðu með almennri gleði og kumpánleika. Við leggjum mikið upp úr að keppnin sé austfirsk og með því að tengja hana við Orminn leggjum við dálítið stolt okkar að veði. Við erum með mikið af austfirskum verðlaunum og njótum góðs af velvilja fyrirtækja og handverksfólks hérna fyrir austan. Við erum til dæmis búin að fá tréhandverksmann til þess að skera út fjögurra metra langan orm, sem verður við endamarkið og heilsar keppendum þar. Við erum að reyna að skapa okkur sérstöðu með þessu, með þessum sveitarómans.“
Vonast til að keppnin haldi áfram að vaxa með þátttöku heimamanna
Hildur segir að hjólafólk fyrir sunnan sé farið að vita af tilveru Tour de Ormurinn og nokkrir farnir að sækja keppnina. Hún segist vonast til þess að þeir taki vini sína með sér næst og að keppnin haldi áfram að vaxa og dafna. Það velti þó einnig á þátttöku heimamanna.
„Ég vona að fleiri heimamenn skrái sig til leiks, þetta er keppni sem við hugsuðum alltaf fyrir samfélagið okkar. Við viljum hvetja að fólk í samfélaginu til þess að hjóla, til þess að átta sig á því hvað hjólreiðar eru frábærar, sem hreyfing, samgöngumáti og keppnisform. Það er auðvitað æðislegt að fá góða gesti en við viljum líka gera þetta fyrir fólkið okkar hérna á svæðinu. Þetta er verkefni sem við viljum sjá stækka, ef menn eru ekki að hjóla þá er hægt að taka þátt með því að vera í brautarvörslu með okkur og íbúar geta einnig komið sér fyrir við brautina með pottar og pönnur og glætt þannig brautina lífi,“ segir Hildur.
„Keppendur okkar tala um að þetta sé ofsalega falleg leið og gríðarlega falleg náttúra, en við höfum kannski ekkert mikið annað. Við erum ekki ekki með einhverja stórskostlega umgjörð í endamarki, uppblásið mark með tímatökubúnaði eða eitthvað þannig. Við erum meira bara „ég á skeiðklukkunni“. Við þurfum að skapa okkur sérstöðu sem snýst um eitthvað annað en peninga, tól og tæki og hún felst kannski í þessu, gleðinni, náttúrufegurðinni, stemningunni og umgjörðinni sem handverkið og þessi austfirsku verðlaun eru að gefa okkur,“ segir Hildur að lokum.