Knattspyrna: Huginn á toppinn og Spyrnir landaði Launaflsbikarnum: Umfjöllun og myndir

launaflsbikarinn 2015 0150Austfirsku liðin stóðu í stórræðum um helgina, en nú er farið að styttast í annan endann á fótboltasumrinu og hver leikur byrjaður að skipta gríðarlegu máli hjá sumum liðunum og þá sérstaklega þeim sem eru að gera atlögu að því að fara upp um deild.

Í C-riðli 1. deildar kvenna er Fjarðabyggð einungis einu stigi frá því að gulltryggja sér annað sæti riðilsins, sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. Liðið vann góðan 0-2 útisigur gegn Einherja á Vopnafirði á laugardag, þar sem Brynja Dögg Sigurpálsdóttir og Sigurdís Egilsdóttir skoruðu sitt markið hvor í fyrri hálfleik.

Fjarðabyggð dugir stig gegn Sindra næstkomandi föstudagskvöld til að tryggja sér annað sæti riðilsins.

Hattarkonur töpuðu 1-5 gegn Hömrunum á Vilhjálmsvelli á laugardag og mæta Einherja í lokaleik beggja liða næstkomandi fimmtudagskvöld. Sá leikur sker úr um hvort liðið endar í neðsta sæti riðilsins, en Hattarliðið hefur 5 stig og Einherji 4 stig eftir ellefu umferðir.

Fjarðabyggð tíu stigum frá toppsætunum
Fjarðabyggðarliðið hefur hikstað örlítið í 1. deild að undanförnu og dregist frá toppbaráttunni, sem liðið virtist líklegt til að blanda sér í af fullri alvöru framan af móti. Liðin tvö sem eru í toppsætunum, Víkingur Ó. og Þróttur, hafa ekki gert nein mistök og virðist fátt geta komið í veg fyrir að þau sigli upp í Pepsi-deildina, en Akureyrarliðin Þór og KA fylgja þeim eftir og síðan kemur Fjarðabyggð í fimmta sætinu, tíu stigum frá Þrótturum, sem eru í öðru sæti.

Fjarðabyggð tapaði 3-1 gegn Haukum á föstudagskvöld. Haukar komust yfir í fyrri hálfleik og tvöfölduðu forystuna síðan á 84. mínútu. Viktor Örn Guðmundsson minnkaði muninn með glæsilegu aukaspyrnumarki í uppbótartíma, en Haukamenn svöruðu því strax.

Næsti leikur Fjarðabyggðar er gegn botnbaráttuliði Gróttu, á Eskjuvelli, annað kvöld kl. 18:00.

2. deild: Huginn á toppinn – Leiknismenn töpuðu stigum í Njarðvík
Huginsmenn skelltu sér á topp 2. deildar með góðum 2-0 heimasigri gegn Aftureldingu á laugardag. Leikurinn fór reyndar ekki fram á Seyðisfirði heldur á Fellavelli, vegna þess að Seyðisfjarðarvöllur er óleikfær.

Fyrirliðinn Birkir Pálsson kom Huginsmönnum yfir á 37. mínútu. Birkir skorar ekki á hverjum degi, en þetta var hans þriðja mark í alls 235 meistaraflokksleikjum í deild og bikar með Huginn, Þrótti R. og Hetti. Síðast skoraði Birkir árið 2004, þegar lið Hugins vann 3. deild karla.

Hinrik Atli Smárason bætti svo við öðru marki Hugins í seinni hálfleik og Seyðfirðingar skutu sér á toppinn, þar sem lið Leiknis hafði gert jafntefli við Njarðvík á Njarðtaksvellinum í Reykjanesbæ fyrr um daginn.

Fyrri hálfleikur var markalaus í leik Njarðvíkur og Leiknis, en Fernando Garcia braut ísinn á 52. mínútu. Njarðvíkingar fengu þó vítaspyrnu þegar korter var eftir af leiknum og úr henni skoraði enginn annar en Tryggvi Guðmundsson. Leiknismönnum tókst ekki að bæta við öðru marki og þurftu því að sætta sig við að koma bara með eitt stig heim.

Leiknismenn eru í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Huginn og með jafnmörk stig og ÍR. Markatalan hjá öllum liðunum er mjög svipuð og ljóst að þetta þriggja hesta kapphlaup um fyrstudeildarsætin tvö verður æsispennandi.

Hattarmenn fóru á Hornafjörð á sunnudag og töpuðu 1-0 gegn heimamönnum í Sindra. Lið Hattar situr sem fastast í sjötta sæti deildarinnar með 19 stig, en fyrir neðan þá er þéttur pakki og lið Ægis, sem situr í 11. sæti, er með 14 stig, svo Hattarmenn verða að halda áfram að sanka að sér stigum, ef þeir vilja ekki dragast niður í fallbaráttuna.

Spyrnir tryggði sér Launaflsbikarinn eftir framlengingu
Lið Spyrnis frá Egilsstöðum er Launaflsbikarmeistari UÍA árið 2015. Spyrnismenn unnu Leikni B í framlengdum úrslitaleik með fjórum mörkum gegn tveimur. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 2-2.

Úrslitaleikurinn fór fram á sunnudag á Eskjuvelli á Eskifirði og hófst með miklum látum, en Leiknismenn komust yfir eftir rúmlega mínútu leik. Þá kom langur bolti fram völlinn á Dag Valsson, sem gerði sér lítið fyrir og skoraði með góðu skoti í fjærhornið, framhjá tveimur varnarmönnum Spyrnis. Dagur fékk feykimikinn tíma til að athafna sig og virtust Spyrnismenn hreinlega ekki verið búnir að byrja leikinn.

Þetta mark kom eins og blaut tuska í andlitið á Spyrnismönnum og þeir áttuðu sig á því að til þess að eiga möguleika á að vinna leikinn þá þyrftu þeir að vera með. Fljótlega færðist töluverð harka í leikinn og nokkrum mínútum eftir markið fór Spyrnismaðurinn Arnar Jóel Rúnarsson í glæfralega tæklingu á Svan Árnason varnarmann Leiknis. Þeir lentu saman í kjölfar þessa og Arnar Jóel lá óvígur eftir – og vildi hann meina að Svanur hefði stigið í nárann á honum. Dómari leiksins veitti hins vegar Arnari Jóel gult spjald fyrir tæklinguna, en Arnar þurfti að fara af velli skömmu síðar og tók ekki frekari þátt í leiknum.

Spyrnisliðið vann sig smám saman inn í leikinn og fengu nokkur afbragðsgóð færi til að skora, en gekk illa. Jóhann Valur Klausen fékk dauðafæri, þegar Óðinn Ómarsson markvörður Leiknis missti boltann frá sér til Jóhanns sem var fyrir opnu marki. Jóhanni tókst samt á einhvern ótrúlegan hátt að setja boltann framhjá markinu. Ótrúlegt klúður.

Þórarinn Máni Borgþórsson fékk á endanum nóg af þessu markaleysi og jafnaði með góðu skoti úr teignum eftir stoðsendingu frá markmanni Spyrnis, Geisla Hreinssyni. Tóti tók boltann niður fyrir utan teig og fann sér pláss til að koma skoti í vinstra markhornið. Snyrtilega gert.

Staðan var 1-1 í hálfleik og bæði lið voru í smá veseni með að hemja boltann, en töluverður vindur á annað markið gerði leikmönnum erfitt fyrir. Spyrnismenn voru með vindinn í bakið og reyndu mikið af stungusendingum, sem fóru í mörgum tilvikum beinustu leið aftur fyrir endalínu.

Síðari hálfleikur hófst ansi rólega, nú voru Leiknismenn með vindinn í bakið og það gerði þeim erfitt fyrir, rétt eins og Spyrnismönnum í fyrri hálfleik. Spyrnismenn nýttu sér vel að vera á móti vindi og settu boltann gjarnan upp í hornið þar sem snöggir kantmenn þeirra ollu bakvörðum Leiknis miklum heilabrotum. Sérstaklega var Sigmar Hákonarson Leiknismönnum erfiður, en hann óð upp hægri kantinn í tíma og ótíma.

Það var einmitt eftir eina sókn Spyrnismanna upp hægri kantinn sem annað mark þeirra kom á 73. mínútu leiksins. Þá barst boltinn á Nökkva Jarl Óskarsson sem kom honum laglega fyrir markið og þar kom Þórarinn Máni aðvífandi og skoraði með góðu skoti. 2-1 fyrir Spyrni og Leiknismenn komnir með bakið upp við vegg.

Leiknismenn bættu í sóknina en það gerði Spyrnismönnum kleift að liggja aftur og beita skyndisóknum. Eftir eina slíka skyndisókn misstu Leiknismenn mann af velli með rautt spjald. Þá slapp Sigmar framhjá Unnari Ara Hanssyni og í þann mund sem Sigmar var að fara að komast í upplagt marktækifæri togaði Unnar í Sigmar og sparkaði hann niður. Dómari leiksins gaf Unnari rautt spjald og því voru Fáskrúðsfirðingar manni færri síðustu tíu mínútur leiksins.

Sókn þeirra var þung seinustu mínúturnar og Spyrnismenn féllu mjög aftarlega. Leiknismönnum gekk illa að skapa sér alvöru færi og allt virtist stefna í að Spyrnir myndi sigra leikinn. Í lokasókn leiksins fengu Leiknismenn þó vítaspyrnu, þegar brotið var á sóknarmanni þeirra innan teigs.

Spyrnismenn voru allt annað en sáttir við dóminn, en ákvörðun dómarans fékkst að sjálfsögðu ekki haggað, þrátt fyrir hávær mótmæli. Dagur Már Óskarsson fór á punktinn og kom boltanum í netið af öryggi. Því var framlengt á Eskjuvelli og spennustigið orðið ansi hátt.

Spyrnismenn áttu meira eftir á tanknum
Í framlengingunni nutu Spyrnismenn þess að vera manni fleiri og einnig þess að vera með fleiri leikmenn tiltæka á bekknum, en frjálsar skiptingar eru leyfðar í Launaflsbikarnum og því munar um hverja ferska fætur sem geta komið inn á. Leiknismenn voru með þunnskipaðan hóp í þessum leik – einungis 13 leikmenn á skýrslu.

Spyrnismenn sóttu meira í upphafi framlengingar með vindinn í bakið. Þeir fengu hornspyrnu á 105. mínútu og upp úr henni kom þriðja mark liðsins. Boltinn kom fyrir frá vinstri, Þórarinn Máni flikkaði honum áfram inn í teiginn, í varnarmann Leiknis og þaðan í markið. Sjálfsmark og staðan orðin 3-2 fyrir Spyrni.

Leiknismenn reyndu hvað þeir gátu að jafna en sóknir þeirra báru ekki árangur. Þeir voru líka augljóslega orðnir töluvert þreyttari en Spyrnismenn og síðustu tíu mínúturnar spilaði meira að segja erlendur leikmaður, sem fáir kunnu deili á, en hafði fylgst leiknum með af áhuga frá hliðarlínunni. Hann komst ágætlega frá sínu, þó að hann væri reyndar á strigaskónum.

Spyrnismenn gulltryggðu sigurinn með marki á 114. mínútu. Þá skoraði Jóhann Klausen með góðu skoti úr teignum, en þess má geta að Jóhann varð markahæstur í Launaflsbikarnum í sumar. Eftir þetta mark var sigur Spyrnis ekki í neinni hættu og leikurinn fjaraði út í rokinu og rigningunni á Eskifirði.

Spyrnismenn standa því uppi sem sigurvegarar í Launaflsbikarnum og eru vel að sigrinum komnir. Í úrslitaleiknum mættust tvö bestu lið deildarinnar í sumar og var leikurinn heilt yfir frekar jafn og spennandi. Spyrnir voru með fjölmennari hóp í úrslitaleiknum og það vóg þungt.

launaflsbikarinn 2015 0005launaflsbikarinn 2015 0036launaflsbikarinn 2015 0055launaflsbikarinn 2015 0100launaflsbikarinn 2015 0107launaflsbikarinn 2015 0164launaflsbikarinn 2015 0190launaflsbikarinn 2015 0215launaflsbikarinn 2015 0222launaflsbikarinn 2015 0242launaflsbikarinn 2015 0342launaflsbikarinn 2015 0388launaflsbikarinn 2015 0410launaflsbikarinn 2015 0545launaflsbikarinn 2015 0611launaflsbikarinn 2015 0633launaflsbikarinn 2015 0663

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.