Knattspyrna: El Fjarðíco – Leiknismenn mæta fullir sjálfstrausts

fotbolti leiknir kf 06082015 0019 webÁ morgun fer fram sannkallaður stórleikur í 2. deild karla í knattspyrnu, þegar Leiknismenn taka á móti Huginn í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði kl. 18:30. Liðin skipa tvö efstu sæti deildarinnar fyrir leikinn, Huginsmenn eru á toppnum með 38 stig og Leiknir eru í öðru sæti með einu stigi færra. ÍR-ingar anda ofan í hálsmálið á austfirsku liðunum og hafa jafnmörg stig og Leiknir í þriðja sætinu.

Sex leikir eru eftir af mótinu og ljóst er að liðið sem sigrar á morgun kemst í ansi álitlega stöðu og stígur skref í áttina að því að fara upp úr deildinni. Austurfrétt heyrði í Björgvini Stefáni Péturssyni, fyrirliða Leiknismanna.

„Það hentar okkur mjög vel að spila á gervigrasi“
„Mér líst vel á þennan leik, þetta verður bara gaman,“ segir Björgvin, nýlentur á Egilsstaðaflugvelli, en hann er fluttur til Reykjavíkur og byrjaður í skóla. „Við förum bara fullir sjálfstraust inn í þennan leik og stefnum að þremur stigum eins í öllum leikjum.“

Leiknismenn þurftu þó að sætta sig við jafntefli gegn Njarðvík um seinustu helgi. „Það var eiginlega bara ömurlegur leikur af okkar hálfu. Það var flest að klikka fannst mér, við náðum ekki að spila okkar leik. Njarðvíkurliðið á samt hrós skilið, þeir börðust eins og ljón allan tímann,“ segir Björgvin.

Leikurinn verður spilaður í Fjarðabyggðarhöllinni, eins og allir heimaleikir Leiknismanna í sumar, en Búðagrund hefur ekki verið í góðu standi. „Það hentar okkur mjög vel að spila á gervigrasi og mér finnst skemmtilegra að spila á góðu gervigrasi en lélegu grasi og ég held að flestir geti verið sammála um það.“

Björgvin segir að aðsóknin á leiki Leiknis hafi verið góð í sumar þrátt fyrir að að þeir séu spilaðir á Reyðarfirði. „Fáskrúðsfirðingar eru duglegir að fjölmenna á leiki hjá okkur þó að þeir séu á Reyðarfirði og ég þakka þeim kærlega fyrir það.“

„Nauðsynlegt að tapa allavega ekki“
Leiknismenn eru í fínu standi fyrir leikinn, þó að nokkrir í hópnum hafi verið að glíma við hettusótt. „Það eru allir heilir, Hector er reyndar ekki alveg kominn til baka en gæti verið í hóp á morgun. Svo er hettusóttin að herja aðeins á okkur, það eru tveir eða þrír leikmenn búnir að fá hettusótt hjá okkur í sumar og einn verður ekki með á morgun af þeim sökum,“ segir Björgvin.

Toppbaráttan er æsispennandi og hvert einasta stig er dýrmætt í síðustu sex leikjunum. „Það er nauðsynlegt að tapa allavega ekki á morgun, en við viljum auðvitað sigur. Það er alltaf stefnan. Það kæmi mér á óvart KV kæmi inn í baráttuna aftur, en aldrei að segja aldrei, þeir eru með gott lið. ÍR er með gott lið og ég held að þeir verði áfram jafnsterkir.“

Björgvin er sem áður segir farinn til Reykjavíkur í skóla, eins og margir aðrir leikmenn austfirsku knattspyrnuliðanna. „Ég og Hilmar og Valdimar sem er í láni hjá okkur erum í bænum. Við eigum fimm leiki eftir fyrir austan og við fljúgum bara í þá. Við æfum með góðvinum okkar í Álftanesi en þegar að Fjarðabyggðarliðið kemur í bæinn eftir þessa helgi verðum við með þeim,“ segir Björgvin að lokum.

Mynd: Björgvin Stefán grimmur á svip.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar