„Örugglega þægilegra fyrir þessi Reykjavíkurfélög að labba yfir í næsta íþróttahús og spila“

karfa hottur fsu 0163 webHattarmenn unnu sér sæti í Dominos-deild karla í körfubolta síðasta vor, en þá sigraði liðið 1. deild karla. Keppni í Dominos-deildinni hefst um miðjan október og undirbúningur er í fullum gangi. Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari liðsins segir að markmið vetrarins sé skýrt; að halda sér í deildinni og verða í framhaldinu stöðugt úrvalsdeildarlið.

„Stemningin er bara góð. Það er ekkert annað hægt þegar þetta er að byggjast upp hérna,“ segir Viðar í samtali við Austurfrétt. „Félagið hefur bara einu sinni áður verið í efstu deild og þetta verður „challenge“ fyrir okkur. Við munum gera okkar besta til að vera okkur og bænum til sóma í baráttunni.“

Viðar segist vera kominn með þann leikmannahóp í hendurnar sem hann ætlar að vera með í vetur. „Það eru smá breytingar frá því í fyrra. Mirko, Helgi og Eysteinn koma inn og svo er Nökkvi farinn út í skóla til Bandaríkjanna og verður ekki með okkur í vetur.“ Þá ætlar Viðar sjálfur ekki að spila með í vetur og segir að það þurfi ansi mikið að ganga á til þess, en hann lék tæpar 20 mínútur í leik að meðaltali síðasta vetur.

Hópurinn hefur verið tvístraður í sumar en Viðar segir allan mannskapinn vera að koma saman á næstu 10 dögum. „Það hafa nokkrir verið fyrir sunnan og svo hafa Tobin og Mirko verið erlendis, en við förum í æfingamót í Þorlákshöfn um helgina og spilum þrjá leiki. Þar verða allir með nema Mirko og Tobin.“

„Það er á okkar valdi og þeirra áhorfenda sem mæta að búa til gryfju“
Viðar segir verkefni vetrarins krefjandi. „Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við verðum ekki með sama sigurhlutfall og í fyrra, en við erum komnir með ágætis leikmannahóp og ætlum okkur að vinna með það og sjá hvað það kemur okkur hátt á töfluna.“

Höttur er eitt þriggja landsbyggðarliða í Dominos-deildinni, en hin tvö eru Tindastóll og Snæfell. Annars eru öll liðin staðsett á suðvesturhorni landsins. Viðar segist vonast til þess að aðkomuliðin geri fýluferðir til Egilsstaða.

„Það er örugglega þægilegra fyrir þessi Reykjavíkurfélög að labba bara yfir í næsta íþróttahús og spila. Það er á okkar valdi og þeirra áhorfenda sem mæta að búa til gryfju hérna og koma í veg fyrir að liðin fari ánægð í burtu.“

„Dúkurinn var orðinn lélegur“
Síðustu vikur hafa staðið yfir framkvæmdir á gólfi íþróttahússins á Egilsstöðum og nú er verið að leggja lokahönd á að skipta gamla dúknum út fyrir parket. Viðar segir það frábært fyrir alla þá sem iðka íþróttir í húsinu.

„Þetta er mikið heilsusamlegra fyrir alla sem eru að æfa á þessu. Þetta er ekkert bara fyrir körfuboltaliðið, við erum með skólaíþróttir og annað þarna. Dúkurinn var orðinn lélegur og var að hafa áhrif á þá sem voru aumir í hnjám, ökklum og baki og svona. Það er frábært að það sé komin einhver stefna í að byggja upp íþróttamannvirki, eins og fimleikahús og fleira. Það er bara frábært fyrir bæjarfélagið.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.