Knattspyrna: Lokaspretturinn í 2. deild karla – Fara Huginn og/eða Leiknir upp?
Fjögur lið berjast um tvö efstu sætin í 2. deild karla í knattspyrnu, er fimm umferðir eru óleiknar. ÍR, Huginn og Leiknir hafa skipst á því að skjóta sér á toppinn í sumar en nú er staðan sú að ÍR er með 40 stig, Huginn 39 og Leiknismenn 38. Knattspyrnufélag Vesturbæjar, KV, hefur svo komið bakdyramegin inn í toppbaráttuna með góðum úrslitum á seinni hluta tímabilsins og hefur 32 stig í fjórða sæti.Ljóst er að seinustu fimm umferðirnar verða gríðarlega spennandi þar sem liðin fjögur eiga eftir að leika marga leiki innbyrðis. Austfirsku liðin hafa örlög sín algjörlega í eigin höndum.
ÍR
Afturelding (H)
Njarðvík (H)
Leiknir (Ú)
Huginn (Ú)
KV (H)
ÍR-ingar leika í kvöld gegn Aftureldingu og ljóst að margir Austfirðingar vilja innilega sjá Breiðholtsliðið tapa þeim leik. Síðustu þrír leikirnir hjá ÍR eru gegn hinum toppbaráttuliðunum og ljóst að liðið á ærið verk fyrir höndum vilji það fara upp um deild, enda hafa hvorki Seyðfirðingar né Fáskrúðsfirðingar tapað leik á heimavelli í sumar!
Huginn
Njarðvík (H)
KV (Ú)
KF (Ú)
ÍR (H)
Sindri (Ú)
Huginmenn eiga eftir að fara í Vesturbæinn og fá svo ÍR-inga í heimsókn í næstseinustu umferðinni. Annars eiga Huginsmenn leiki gegn liðum sem eru botnbaráttu (Njarðvík og Sindra) og KF, sem er rétt fyrir ofan botnbaráttupakkann og hefur verið á ágætu skriði að undanförnu. Huginsmenn þurfa að fara með hausinn rétt skrúfaðan á inn í næsta leik gegn Njarðvík, enda alltaf að spila gegn liðum sem eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.
Leiknir
KV (Ú)
Sindri (Ú)
ÍR (H)
Ægir (H)
Höttur (Ú)
Leiknismenn heimsækja Vesturbæinga í næstu umferð og mikilvægi þess leiks fyrir Fáskrúðsfjarðarliðið er gríðarlegt. Ef að Leiknismenn tapa þeim leik og ÍR og Huginn sigra sína væru Leiknismenn allt í einu komnir fjórum stigum frá öðru sætinu. Það gæti reynst erfitt. Leiknisliðið fær svo ÍR-inga og Ægismenn í heimsókn í Fjarðabyggðarhöllina og þarf einnig að fara í tvær strembnar ferðir á Hornafjörð og til Egilsstaða.
KV
Leiknir (H)
Huginn (H)
Njarðvík (Ú)
KF (H)
ÍR (Ú)
Þrátt fyrir KV sé töluvert á eftir hinum liðunum eru Vesturbæingar sennilega það lið sem mest áhrif getur haft á toppbaráttuna, en í næstu tveimur leikjum fá þeir Leikni og Huginn í heimsókn í Vesturbæinn. Í seinustu umferðinni fara KV svo í heimsókn í Breiðholtið til ÍR-inga. Því má ekki afskrifa Vesturbæjarliðið strax, þrátt fyrir að sjö stig séu á milli þeirra og Huginsmanna.
Fallbaráttan
Þrátt fyrir að lið Hattar sitji í sjöunda sæti í þessari tólf liða deild, er liðið hvergi nærri öruggt með að halda sæti sínu. Hattarmenn eru með 19 stig en Njarðvík, sem er í 11. sæti deildarinnar, er með 16 stig. Á milli Hattar og Njarðvíkur eru svo Sindri, Ægir og Tindastóll. Reikna má með að þessi fimm lið verði í stífri baráttu allt fram á seinustu stundu um að forðast það að fylgja Dalvík/Reyni niður í 3. deild.
Dagskrá Hattarmanna er ekkert sérlega þægileg. Þeir fara í heimsókn í Fjallabyggð næstu helgi og fá síðan botnlið Dalvíkur/Reynis í heimsókn næsta miðvikudag. Sá leikur verður hreinlega að vinnast, því eftir það á Hattarliðið tvo erfiða útileiki gegn Tindastól og Aftureldingu, áður en liðið fær nágranna sína í Leikni í heimsókn í lokaumferðinni – í leik sem gæti orðið úrslitaleikur fyrir bæði lið, á sitthvorum enda deildarinnar.
Síðustu 5 leikir Hattar
KF (Ú)
Dalvík/Reynir (H)
Tindastóll (Ú)
Afturelding (Ú)
Leiknir (H)