Knattspyrna: Fáskrúðsfirðingar komnir á toppinn – Fjarðabyggð sigraði loksins
Að venju var helgin viðburðarík í austfirskri knattspyrnu. Fjarðabyggð er í erfiðri stöðu í úrslitakeppninni í 1. deild kvenna eftir að hafa tapað 3-0 gegn ÍA á Norðfjarðarvelli. Karlalið Fjarðabyggðar vann langþráðan sigur og í annarri deild nýttu Leiknismenn sér tækifærið og skutu sér á toppinn. Huginsmenn töpuðu sínum fyrsta heimaleik í sumar og Hattarmenn unnu gríðarlega sterkan og mikilvægan sigur í markaleik í Fjallabyggð.Fjarðabyggð kom sér í úrslitakeppni 1. deildar kvenna með því að hafna í öðru sæti C-riðils. Mótherjar þeirra í 8-liða úrslitum eru ÍA og á laugardag léku liðin fyrri leik sinn á Norðfirði. 0-3 sigur ÍA varð niðurstaðan og ljóst að Fjarðabyggð þarf að eiga sinn allra allra besta leik til að fara á Akranes á morgun og sigra með þremur mörkum eða meira.
Karlalið Fjarðabyggðar vann hinsvegar loksins leik, þegar liðið tók á móti Þrótti á Eskjuvelli á laugardag. Hákon Þór Sófusson skoraði eina mark leiksins skömmu eftir leikhlé. Fjarðabyggðarliðið situr enn í 7. sæti deildarinnar, en með þessum sigri hleyptu þeir toppbaráttunni í deildinni í loft upp og KA skaust upp fyrir Þrótt í annað sætið, en Þróttarar hafa verið í tveimur efstu sætunum nánast í allt sumar.
Einherji vann góðan sigur gegn Berserkjum í 3. deildinni á sunnudag. Berserki komust yfir í fyrri hálfleik en tvö mörk frá Gunnlaugi Baldurssyni og Daníel Smára Magnússyni tryggðu Einherjamönnum 2-1 sigur. Einherjamenn eiga tvo leiki eftir í deildinni og sitja sem stendur í fjórða sæti.
Höttur sótti kærkomin þrjú stig á Ólafsfjörð á sunnudag en leiknum var frestað um einn dag vegna úrkomunnar sem var fyrir norðan fyrir helgi. Hattarmenn byrjuðu leikinn gríðarlega vel og voru 3-1 yfir í hálfleik. Óttar Steinn Magnússon og Högni Helgason skoruðu fyrstu tvö mörk Hattar og þriðja markið var sjálfsmark hjá leikmanni KF. Óttar varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
KF minnkaði muninn í 2-3 á 59. mínútu, en Runólfur Sveinn Sigmundsson skoraði fjórða mark Hattar sjö mínútum síðar. Gestirnir náðu svo að minnka muninn í 3-4 undir lok leiks en komust ekki lengra. Sigurður Hrannar Björnsson markvörður Hattar varði einnig vítaspyrnu í leiknum.
Hattarmenn eru nú í 6. sæti deildarinnar með 22 stig, fjórum stigum frá Ægi og Tindastól sem eru í 10.-11. sæti deildarinnar.
Toppbaráttan galopin í 2. deild
Það urðu heldur betur sviptingar á toppi 2. deildar um helgina. ÍR tapaði sínum leik á föstudagskvöld og því voru austfirsku liðin Huginn og Leiknir allt í einu komin í kjörstöðu til að smella sér í toppsætin.
Leiknismenn áttu erfiðan útileik gegn KV en gerðu sér lítið fyrir og unnu 3-1 sigur. Vesturbæingar komust yfir með marki úr víti í upphafi síðari hálfleik en Leiknismenn svöruðu af krafti. Tadas Jocys jafnaði leikinn áður en Fernando Garcia og Guðmundur Arnar Hjálmarsson tryggðu sigurinn á síðustu 10 mínútunum.
Frábær sigur hjá Leiknismönnum, sem skelltu sér á toppinn því að Seyðfirðingar töpuðu sínum leik óvænt á laugardag, þegar Njarðvík kom í heimsókn á Fellavöll.
Fyrri hálfleikur leiksins var ekki mikið fyrir augað og í leikhléi var markalaust. Hlutirnir glæddust örlítið í síðari hálfleik og Huginsmenn voru heilt yfir sterkari aðilinn, án þess þó að ná að skapa sér afgerandi færi.
Það var því eiginlega dálítið gegn gangi leiksins þegar Njarðvíkingar komust yfir á 74. mínútu. Huginsmenn reyndu hvað þeir gátu að opna vörn gestanna eftir þetta, en ekkert gekk, þó að oft hafi skapast stórhætta í vítateig Njarðvíkinga.
Huginsmenn hefðu líka alveg klárlega átt að fá vítaspyrnu í síðari hálfleiknum þegar varnarmaður Njarðvíkinga hljóp einn leikmann Hugins niður. Heilt yfir eyddu Huginsmenn þó of mikilli orku í að svekkja sig eftir að þeir lentu undir og Njarðvíkingar náðu að halda út.
Því er staðan á toppi 2. deildar nú sú að Leiknir er á toppnum með 41 stig, ÍR hefur 40 í öðru sæti og Huginsmenn eru í þriðja sæti með 39 stig.