Knattspyrna: Leiknir og Huginn leika í fyrstu deild að ári – Sjáðu mörk Hugins og fögnuð Fáskrúðsfirðinga

leiknir huginn04Liðin helgi var heldur betur söguleg fyrir austfirska knattspyrnu. Leiknir og Huginn tryggðu sér sæti í fyrstu deild í fyrsta sinn í sögu beggja félaga og því er ljóst að þrjú austfirsk lið leika í næstefstu deild næstkomandi sumar.

Hin austfirsku liðin áttu misjöfnu gengi að fagna um helgina. Einherjamenn enduðu tímabilið í 3. deildinni með frábærum 5-2 sigri gegn liðinu sem rústaði deildinni, Magna frá Grenivík. Dilyan Kolev skoraði þrennu fyrir Einherja og Sigurður Donys og Sigurður Vopni Vatnsdal bættu við einu hvor. Lið Einherja átti ágætis mót og endaði í fjórða sæti deildarinnar.

Fjarðabyggð fékk 0-4 skell á heimavelli gegn HK. Kópavogsliðið komst yfir eftir tæpar fjörutíu mínútur og skömmu seinna var Kile Kennedy markverði Fjarðabyggðar vikið af velli og KFF fékk á sig víti sem HK-menn nýttu. Róðurinn var þungur eftir það og í seinni hálfleik bættu HK við tveimur mörkum.

Hattarmenn hafa verið á miklu flugi í síðustu umferðum og kafsigldu Aftureldingu á Varmárvelli í Mosfellsbæ á laugardaginn. Högni Helgason kom Hattarmönnum yfir á 23. mínútu en Mosfellingar jöfnuðu leikinn fyrir leikhlé. Í síðari hálfleik skoruðu Hattarmenn svo þrjú mörk til viðbótar og unnu sannfærandi 1-4 sigur. Brynjar Árnason skoraði tvö mörk í síðari hálfleiknum og Marteinn Gauti Kárason eitt.

Hattarliðið hefur nú skorað 13 mörk í síðustu þremur leikjum, en hafði skorað 16 mörk í leikjunum 18 þar á undan. Nú eygja Hattarmenn möguleika á því að ná fjórða sæti deildarinnar í lokaumferðinni – en ekki er langt síðan fallbarátta virtist blasa við félaginu.

Sögulegur árangur Leiknis og Hugins
Leiknismenn unnu sannfærandi 6-1 sigur á botnbaráttuliði Ægis frá Þorlákshöfn á laugardaginn, en fyrir leikinn var nokkuð ljóst að sigur myndi fara langleiðina með það að tryggja liðið upp um deild, þar sem Huginn og ÍR mættust í Fellabæ á sama tíma. Tadas Jocys og Hector Pena Bustamente komu Leiknismönnum í 2-0 í fyrri hálfleik og í upphafi síðari hálfleiks urðu gestirnir einum færri þegar markverði þeirra var vikið af velli.

Eftirleikurinn reyndist auðveldur fyrir Fáskrúðsfirðinga og Almar Daði Jónsson skoraði tvö mörk og Valdimar Ingi Jónsson eitt áður en Þorlákshafnarliðið náði að svara fyrir sig. Ferran Garcia innsiglaði svo 6-1 sigur Leiknis á lokamínútu leiksins. Leiknismenn fögnuðu svo rækilega í lok leiks þegar ljóst var að liðið var komið upp í fyrsta deild í fyrsta sinn í sögu félagsins.



Huginsmenn fengu ÍR í heimsókn á laugardaginn í leik sem skipti öllu máli fyrir bæði lið. Skemmst er frá því að segja að Huginsliðið sigraði 2-1 eins og þú kæri lesandi veist eflaust.

Marko Nikolic skoraði fyrsta mark leiksins beint úr aukaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og allt ætlaði um koll að keyra í stúkunni á Fellavelli, en þar hafa Seyðfirðingar þurft að spila síðustu heimaleiki sína vegna bágs ástands vallarins á Seyðisfirði. ÍR-ingar jöfnuðu svo leikinn á 83. mínútu með marki úr vítaspyrnu, en Huginsmenn svöruðu þremur mínútum síðar með markinu sem skipti öllu máli. Þá unnu þeir boltann eftir hættulega sókn ÍR og geystust fram völlinn í snarpa sókn sem Hinrik Atli Smárason rak endahnútinn á með góðri afgreiðslu á fjærstönginni.

Sjón er sögu ríkari og mörkin má sjá hér að neðan.


Leiknir og Huginn eiga bæði einn leik eftir í 2. deildinni. Leiknismenn heimsækja Hattarmenn upp á Hérað en Huginsmenn fara í heimsókn á Hornafjörð og mæta Sindra. Eftir þá leiki verður ljóst hvort liðið stendur uppi sem sigurvegari í deildinni, en liðin eru bæði með 48 stig en markatala Leiknis er betri.

Það sem er þó ljóst nú þegar er það að lið eins og Keflavík, Fram og Selfoss koma í heimsókn á Fáskrúðsfjörð og Seyðisfjörð næsta sumar, auk auðvitað nágrannana í Fjarðabyggð.

Mynd: Úr leik Leiknis og Hugins í Fjarðabyggðarhöllinni fyrr í sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar