Leikur helgarinnar: Ætluðum að fagna hvernig sem leikurinn færi

IMG 2173 webHöttur endaði keppnistímabilið í annarri deild karla vel með 3-1 sigri á Leikni á heimavelli á laugardag. Leiknismenn ætluðu sér stærri hluti enda í efsta sætinu fyrir leikinn. Þeir mega samt vel við una eftir því sætið í fyrstu deild að ári var tryggt fyrir leikinn.

„Þetta hefur verið frábært sumar en auðvitað er pínulítið svekkjandi að við skyldum ekki lyfta dollunni hér í dag," sagði Viðar Jónsson, þjálfari Leiknis í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.

„Við ræddum um það fyrir leikinn að við myndum fagna hvernig sem leikurinn færi. Þetta er geggjað lið, geggjað strákar með frábærri stjórn og umgjörð."

Leiknismenn komust yfir á 20. mínútu þegar Almar Daði Jónsson skoraði en Elvar Ægisson jafnaði skömmu fyrir leikhlé. Í seinni hálfleik bættu Jordan Farahani og Högni Helgason við mörkum fyrir Hött.

Nokkur hiti var í leikmönnum beggja liða og fengu Leiknismenn fimm gul spjöld í seinni hálfleik en Hattarmenn eitt. Upp úr sauð síðan tíu mínútum fyrir leikslok þegar leikmaður Leiknis sló Friðrik Þráinsson, leikmann Hattar, þannig að Friðrik lá rotaður í vellinum augnablik en var síðan tekinn út af töluvert vankaður.

Fernando Garcia Castellanos fékk rauða spjaldið fyrir brotið en bæði áhorfendur sem og leikmenn úr báðum liðum hafa síðan haldið því fram við Austurfrétt að Julio Francisco Rodriguez Martinez hafi verið sá brotlegi.

Spjaldið stendur enn á Fernando samkvæmt leikskýrslu leiksins en búast má við að aganefnd KSÍ úrskurði í málinu seinni partinn á morgun.

Í samtalinu við Austurfrétt eftir leik viðurkenndi Viðar að spennustigið hefði verið heldur hátt í Leiknisliðinu en hrósaði fyrst og fremst Hattarliðinu fyrir góðan leik.

„Þeir gáfu okkur engan tíma og voru fastir fyrir. Við réðum ekkert við þá í dag."

Viðar segist vonast eftir að geta tekið sér frí frá fótbolta næsta mánuðinn og hugsa um eitthvað annað. „Ég ætla að njóta þess í nokkrar vikur að hafa náð þessu afreki. Síðan förum við að horfa á næsta tímabil."

Hann reiknar með að halda áfram með liðið en samningur hans gildir út næsta sumar. „Við erum byrjaðir að spjalla saman og ég held að ég geti sagt að ég haldi áfram."

Gunnlaugur Guðjónsson, þjálfari Hattar, hafði frekari ástæðu til að vera kátur en lið hans vann síðustu fimm leiki sína í deildinni og skoraði í þeim 19 mörk. Í fyrstu 17 leikjunum voru mörkin hins vegar ekki nema 13 og fimm leikir töpuðust 0-1.

„Við vorum í vandræðum með að skora mörk en fengum Garðar (Grétarsson) til baka úr meiðslum og Elvar (Ægisson) ferskari inn. Við gátum þetta en vorum að brasa við meiðsli framan af sumri. Svo féll þetta fyrir okkur."

Hann sagði það engu skipta þótt andstæðingurinn hefði komið úr nágrannabyggð. „Við hugsum bara um okkur. Við vorum mikið betri í dag. Annars óskum við Huginn og Leikni til hamingju með frábært sumar. Þetta eru góð lið og vel að því komin að fara upp."

Líkt og félagi hans hjá Leikni reiknar Gunnlaugur með að taka sér frí næstu vikurnar. „Síðan sest stjórnin niður og við ræðum hlutina. Það er allt opið, ekkert hefur verið ákveðið."

IMG 2160 webIMG 2185 webIMG 2190 webIMG 2210 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar