Leikmaður Leiknis í þriggja leikja bann
Aganefnd Knattspyrnusambands Íslands úrskurðaði á fundi sínum í dag Fernando Garcia Castellanos, leikmann Leiknis Fáskrúðsfirði, í þriggja leikja bann fyrir atvik í leik liðsins gegn Hetti síðastliðinn laugardag.Fernando var sakaður um að hafa slegið leikmann Hattar með þeim afleiðingum að hann rotaðist augnablik. Dómarar leiksins sáu atvikið og gáfu honum rauða spjaldið.
Síðan hefur verið deilt um hvort dómarar leiksins hafi rekið réttan mann af velli en ekki er að sjá að aganefndin hafi fengið sannanir fyrir öðru.
Bannið er óvenju þungt en í reglulegum úrskurðum nefndarinnar er eitt dæmi um leikmann sem fengið hefur jafn langt bann í sumar. Þess utan fengu tveir leikmenn Afríku bönn í sumar, annars vegar sex leiki og hins vegar tólf mánuði fyrir sérlega ofsafengna framkomu.
Í reglugerð KSÍ um agamál segir að sé leikmanni vísað af leikvelli fyrir ofsalega framkomu, alvarlega grófan leik eða aðra grófa óíþróttamannslega framkomu, skal refsa honum með leikbanni allt að 6 leikjum.
Þrír aðrir leikmenn Leiknis, Almar Daði Jónsson, Björgvin Stefán Pétursson og Paul Bogdan Nicolescu fengu eins leiks bann fyrir uppsafnaðar áminningar. Félagið fékk 10 þúsund króna sekt fyrir refsistig.
Til viðbótar fékk Stefan Spasic, leikmaður Hugins, eins leiks bann fyrir fjórar áminningar í sumar.
Agarefsingar vegna brottvísana, sem ekki eru teknar út flytjast yfir í fyrstu leikjum Íslandsmóts eða bikarkeppni næsta sumars.