Bæjarstjórnin sendi meisturunum kveðju: Áfram Huginn
Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar sendi nýkrýndum annarrar deildarmeisturum Hugins í knattspyrnu karla heillaóskir á fundi sínum á mánudag.Í bókuninni er ekki bara liðinu heldur þjálfara, stjórn og stuðningsmönnum sendar hamingjuóskir með árangur sumarsins en liðið vann 2. deildina og leikur í fyrstu deild næsta sumar.
„Árangur liðsins hefur vakið verðskuldaða athygli innan bæjar og utan.
Stórkostleg frammistaða liðsins er góður vitnisburður um frábært starf og útsjónarsemi við að láta hlutina ganga upp, þrátt fyrir vallaraðstæður í sumar, sem hefðu getað verið hagstæðari," segir í fundargerð.
Þar er vísað til ástand Seyðisfjarðarvallar sem óleikhæfur hefur verið löngum í sumar og lék Huginn bæði fyrstu og síðustu heimaleiki sumarsins á Fellavelli.
Fulltrúar knattspyrnudeildar Hugins hafa fundað með forsvarsmönnum bæjarins að undanförnu um ástand vallarins sem verður nær ónothæfur í bleytu auk þess að koma almennt illa undan vetri.
Auknar kröfur eru gerðar til umgjarðar liða í fyrstu deild, svo sem um stúkubyggingu, en þeim er gefinn aðlögunartími til úrbóta.
En bókun bæjarstjórnar lýkur einfaldlega á orðunum: „Áfram Huginn!"